Hoppa yfir valmynd
19. júlí 2024 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra fjallaði um lýðræðisógnir og samkeppnishæfni á leiðtogafundi Evrópuríkja

Keir Starmer forsætisráðherra Bretlands tók á móti Bjarna Benediktssyni við Blenheim höll - mynd

Lýðræði á tímum fjölþáttaógna, upplýsingahernaðar og falsfrétta, orkumál og málefni flóttamanna voru í brennidepli á leiðtogafundi Evrópuríkja á vettvangi EPC (e. European Political Community) í Bretlandi í gær. Bjarni Benediktsson forsætiráðherra sótti fundinn fyrir Íslands hönd ásamt leiðtogum á fimmta tugs Evrópuríkja auk framkvæmdastjóra NATO, utanríkismálastjóra ESB og Úkraínuforseta sem flutti erindi um varnarbaráttuna gegn ólögmætu innrásarstríði Rússa. Þá bauð Karl Bretakonungur til móttöku að fundi loknum.

Forsætisráðherra ræddi við Karl Bretakonung

Í máli sínu fjallaði forsætisráðherra um mikilvægi samstöðu Evrópuríkja á ófriðartímum og varðveislu lýðræðislegrar umræðu nú þegar að henni er sótt með skipulegum hætti. Auk þess lagði hann áherslu á að varðveita og ýta undir samkeppnishæfni Evrópu. Þannig mætti ekki ganga svo langt í íþyngjandi regluverki að verðmætasköpun yrðu settar skorður, með tilheyrandi áhrifum á velferð í álfunni.

Forsætisráðherra átti tvíhliða fund með Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar

Þá átti forsætisráðherra tvíhliða fundi með Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar, Eviku Siliņa, forsætisráðherra Lettlands, Daniel Risch, forsætisráðherra Liechtenstein, Josep Borrell, utanríkismálastjóra ESB, Violu Amherd, forseta Sviss, og Vjosu Osmani, forseta Kósóvó.

Forsætisráðherra átti tvíhliða fund með Eviku Siliņa, forsætisráðherra Lettlands

  • Leiðtogar á fimmta tugs Evrópuríkja komu saman ásamt fulltrúum NATO og ESB - mynd

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum