Ársskýrsla GRÓ 2023 komin út
Alls útskrifuðust 92 sérfræðingar árið 2023 úr fimm til sex mánaða námi í skólunum fjórum sem starfræktir eru á vegum GRÓ – Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu, það er Jafnréttisskólanum, Jarðhitaskólanum, Landgræðsluskólanum og Sjávarútvegsskólanum. Þá útskrifuðust fimm fyrrverandi nemendur með meistaragráðu og einn með doktorsgráðu á skólastyrk frá GRÓ, en á árinu voru alls 36 fyrrverandi nemendur í framhaldsnámi við íslenska háskóla á skólastyrk frá GRÓ.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í ársskýrslu GRÓ, sem nú er komin út, en þar er greint frá starfi skólanna fjögurra og miðstöðvarinnar árið 2023. Ýmis styttri námskeið voru einnig haldin á vettvangi í samstarfsríkjum með rúmlega 300 þátttakendum. Árið 2023 skráðu á sjöunda þúsund sig á námskeið á vegum skólanna sem aðgengileg eru á netinu og var einu nýju netnámskeiði hleypt af stokkunum.
„Starfsemi GRÓ er mikilvægur þáttur í þróunarsamvinnu Íslands en þar hefur um áratugabil verið unnið mikilvægt starf til að efla sjálfbæra þróun í samstarfslöndum um heim allan. Sérþekking Íslands á sviði jafnréttismála, jarðhita, landgræðslu og sjávarútvegs, og sú velsæld sem skapast hefur hér á landi á grundvelli hennar, sýnir hvaða möguleikar geta opnast í öðrum löndum með eflingu þekkingar sem miðar að því að stuðla að sjálfbærri þróun og framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra.
GRÓ starfar undir merkjum Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO). Í skýrslunni er sérstakur viðauki um starf hvers skóla á vegum GRÓ og einnig að finna sögur af starfi nemenda eftir útskrift og upplýsingar um áhrifin af starfinu. Í skýrslunni er starfið í fyrsta sinn fært inn í árangursramma GRÓ þar sem umfang starfseminnar er sett fram á samræmdan hátt. Vinnu við mótun árangursrammans lauk einmitt á síðasta ári og er hann hluti af breytingakenningu GRÓ, sem er sú aðferðafræði sem UNESCO notar við árangursstjórnun.
Árið 2023 vann GRÓ með margvíslegum hætti að því að efla samstarfið við UNESCO og tengslanet útskrifaðra nemenda. Í fyrsta sinn var staðið fyrir viðburðum þar sem útskrifaðir nemendur GRÓ komu saman í heimaríkjum sínum, þvert á málefnasviðin, í samstarfi við UNESCO og sendiráð Íslands. Að auki má nefna að gerð var úttekt á styrkveitingum GRÓ til framhaldsnáms til útskrifaðra nemenda.