Hoppa yfir valmynd
9. ágúst 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Ylja - Neyslurými

Ylja, fyrsta staðbundna neyslurýmið sem byggir á hugmyndafræði skaðaminnkunar hefur verið opnað í Borgartúni í Reykjavík. Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir opnun þess marka tímamót í þjónustu við fólk sem glímir við fíknisjúkdóma. Verkefnið er hluti af stefnumótun og aðgerðum stjórnvalda í skaðaminnkun sem unnið er að og kynntar verða á næstunni. Vonir standa til að tilkoma staðbundins neyslurýmis muni auka öryggi og draga úr alvarlegum afleiðingum vímuefnanotkunar í óöruggum aðstæðum s.s. sýkingum, smitsjúkdómum og ofskömmtun ásamt því að veita notendum þjónustunnar mikilvæga lágþröskulda heilbrigðisþjónustu, stuðning og ráðgjöf.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar með neysluvanda, 18 ára og eldri, geta notað vímuefni í öruggu umhverfi undir eftirliti sérhæfðs starfsfólks. Hugmyndafræðin að baki felst í skaðaminnkun, þ.e. að draga úr skaðsemi vímuefnaneyslu, tryggja öryggi notenda og koma í veg fyrir dauðsföll. Notendur þurfa að útvega sér sín eigin efni en í neyslurýminu fá þeir meðal annars hreinan sprautubúnað, öruggt rými til að nota efnin. Í Ylju verður ávallt heilbrigðisstarfsfólk og sérhæfðir starfsmenn á vakt. Þar verður einnig veitt lágþröskuldaheilbrigðisþjónusta, s.s. meðhöndlun sára og sýkinga og unnt að taka blóðprufur til að greina smit s.s. lifrarbólgu, kynsjúkdóma eða HIV-smit.

Árið 2022 var ráðist í tilraunaverkefni til eins árs um færanlegt neyslurými með það að markmiði að meta þörfina fyrir staðbundið, varanlegt neyslurými hérlendis. Rauði krossinn á Íslandi (RKÍ) sá um reksturinn samkvæmt samningi velferðarsviðs Reykjavíkur, RKÍ og Sjúkratrygginga Íslands. Þjónustan var veitt í sérútbúinni bifreið sem áður var notuð af Frú Ragnheiði, sem er skaðaminnkunarverkefni RKÍ.

Tilraunaverkefnið frá árinu 2022 hefur staðfest þörfina fyrir neyslurými og ávinninginn af slíku skaðaminnkunarúrræði, jafnt fyrir hlutaðeigandi einstaklinga og samfélagið í heild. Aðstaðan í Borgartúni er sérsniðin fyrir þessa þjónustu, staðsetningin hentar vel hópnum sem á í hlut, aðstaða starfsfólks er góð og þeir sem þurfa á þjónustunni að halda geta gengið að henni vísri.

  • Ylja - Neyslurými - mynd úr myndasafni númer 1
  • Ylja - Neyslurými - mynd úr myndasafni númer 2

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum