Samningur um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar undirritaður
Í dag var undirritaður samningur milli íslenska ríkisins og Landsvirkjunar um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar, vindorkugarðs við Vaðöldu. Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, undirrituðu samninginn og sagði forsætisráðherra fagnaðarefni að vindorkan verði þriðja stoðin í orkukerfi landsins.
Með samningnum veitir íslenska ríkið Landsvirkjun heimild til að reisa og reka vindorkuver á skilgreindu svæði sunnan Sultartangastíflu innan þjóðlendu. Landsvirkjun fær í því skyni tímabundinn afnotarétt að lands- og vindorkuréttindum á svæðinu en samningurinn gildir í 35 ár frá því að vindorkuverið hefur rekstur með mögulegri framlengingu einu sinni um 15 ár.
Samningurinn er gerður á grundvelli nýlegra breytinga á reglugerð um meðferð og nýtingu þjóðlendna, sem byggja á breytingum á þjóðlendulögum sem samþykkt voru á Alþingi í vor. Með breytingunum er forsætisráðherra veitt heimild til að víkja frá auglýsingaskyldu um ráðstöfun lands og landsréttinda innan þjóðlendna til aðila sem þegar hefur afnotarétt eða annars konar réttindi á sama nýtingarsvæði, enda þjóni slík ráðstöfun markmiðum um sjálfbærni, þjóðhagslega hagkvæmni, orkuöryggi og sé í nánum og eðlislægum tengslum við nýtingu sem fyrir er.
Íslenska ríkið og Landsvirkjun munu nú hefja viðræður til að ná fram samkomulagi um fjárhæð endurgjalds vegna vindorkuréttinda en þar skal m.a. taka mið af fyrirliggjandi fordæmum dómstóla, gerðardóma og matsnefnda um sambærileg orkunýtingarréttindi í íslenskum rétti. Einnig verður horft til ákvæða um endurgjald slíkra réttinda í öðrum samningum milli ríkisins og Landsvirkjunar.
Endurgjald fyrir landsréttindi og vegna efnisnáms skal miða við markaðsverð vegna sambærilegra réttinda.
Hafi aðilar ekki náð samkomulagi um fjárhæð endurgjalds fyrir lands- og vindorkuréttindi innan 90 daga frá útgáfu virkjunarleyfis er, samkvæmt samningnum, heimilt að vísa ákvörðun um endurgjald til sérstaks gerðadóms.
Búrfellslundur var færður í nýtingarflokk rammaáætlunar í júní 2022 en Landsvirkjun hóf undirbúning verkefnisins árið 2010. Gert er ráð fyrir að allt að 30 vindmyllur verði reistar í vindorkugarðinum og að uppsett afl verði um 120 MW.
Virkjunarleyfi vegna vindorkuversins var gefið út af Orkustofnun 12. ágúst sl. og fyrr í sumar samdi Landsvirkjun við Landsnet um flutning um tengingu vindorkuversins inn á raforkuflutningskerfið. Áætlanir gera ráð fyrir að orka frá Búrfellslundi verði farin að skila sér inn á raforkukerfið fyrir árslok 2026.
Samningur um lands- og vindorkuréttindi vegna Búrfellslundar á Þjórsársvæði innan þjóðlenda