Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Formleg opnun fjölskylduheimilis á Akureyri

Karólína Gunnarsdóttir sviðsstjóri velferðarsviðs, Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndarþjónustu Eyjafjarðar, Ingibjörg Kristín Gunnarsdóttir, deildarstjóri í Sólbergi, Katrín Björnsdóttir, Anna Guðlaug Gísladóttir og Aldís Hilmarsdóttir, starfsmenn á Sólbergi, Hulda Elma Eysteinsdóttir formaður velferðarráðs, Sólrún Tryggvadóttir, starfsmaður á Sólbergi, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, og Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, opnuðu í dag með formlegum hætti fjölskylduheimilið Sólberg í Kotárgerði á Akureyri. Heimilið hefur nú þegar tekið til starfa en þar fer fram greiningar- og þjálfunarvistun fyrir börn og foreldra þeirra.

Fjölskylduheimilið er rekið á grundvelli samstarfssamnings Akureyrarbæjar og mennta- og barnamálaráðuneytisins sem undirritaður var í byrjun árs. Á efri hæð hússins í Kotárgerði er hægt að vista á sama tíma allt að tvær fjölskyldur og að auki er aðstaða á neðri hæð til að vista unga móður/foreldra með ungt barn eða þungaða móður.

Markmiðið með fjölskylduheimili er að veita inngrip til skamms tíma þegar hefðbundin úrræði duga ekki til. Þar eru börn og ungmenni vistuð, vandi þeirra greindur og viðeigandi þjálfun fer fram sem miðar að því að styrkja forsjáraðila í uppeldishlutverki þeirra og aðstoða börn og ungmenni með viðeigandi hætti svo þau geti snúið heim aftur.

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, ávarpaði samkomuna og hrósaði heimamönnum fyrir einurð sína og ákveðni við að opna faglegt barnaverndarúrræði á Akureyri. „Málefni barna hafa verið mér sérstaklega hugleikin. Erfiðar aðstæður í æsku geta valdið börnum streitu, veikindum, vanlíðan og erfiðleikum langt inn á fullorðinsárin og jafnvel út lífið ef ekki er reynt að bregðast fljótt við með viðeigandi stuðningi. Ég hef í embætti mínu frá upphafi lagt áherslu á réttindi barna og fjölskyldna og þá ekki síst að tryggð verði fullnægjandi þjónusta fyrir þau hér á landi þannig að fjölskyldur sem þess þurfa verði gripnar tímanlega með stuðningi og viðeigandi þjónustu eftir eðli þeirra aðstæðna sem til staðar eru,“ sagði Ásmundur Einar.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri, sagði við sama tækifæri að hún hafi mikla trú á þessu verkefni sem verði án efa til þess að gera gott samfélag á Akureyri enn betra. „Það er afar mikilvægt að grípa eins fljótt og auðið er inn í málin ef óheillaþróunar verður vart. Því fyrr sem við beinum fólki á rétta braut því betra. Með þessu úrræði styðjum við foreldra og forráðamenn til að taka betur utan um börnin sín um leið og við veitum börnum og ungmennum tækifæri til að ná fótfestu í lífinu og búa sér betri framtíð,“ sagði Ásthildur Sturludóttir.

Með úrræðinu er leitast við að grípa fyrr inn í mál barna og ungmenna en áður og koma þannig í veg fyrir að vandi þeirra vaxi og að grípa þurfi til meiri íþyngjandi úrræða, svo sem langtímavistunar fjarri heimabyggð.

Verkefnið er fjármagnað af mennta- og barnamálaráðuneytinu og Akureyrarbæ en velferðarsvið Akureyrarbæjar sér um framkvæmd þess og utanumhald. Um tilraunaverkefni er að ræða og verður framhald verkefnisins ákveðið í ljósi þess árangurs sem það skilar.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum