Breytingar gerðar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta
Forsætisráðherra hefur ákveðið að gera breytingar á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
Með breytingunum sem voru ræddar á fundi ríkisstjórnarinnar í dag verða jafnréttis- og mannréttindamál flutt frá forsætisráðuneytinu yfir á málefnasvið félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins. Þá færist þjóðgarðurinn á Þingvöllum yfir á málefnasvið forsætisráðuneytisins frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu.
Einnig verða gerðar breytingar á forsetaúrskurðinum í samræmi við nýlega samþykkt lög á síðasta löggjafarþingi. Tillaga um breytingar á forsetaúrskurðinum verður lögð fyrir forseta Íslands á næstu dögum en gert er ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. september nk.