Hoppa yfir valmynd
16. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 16. ágúst 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar þessa liðnu viku.

Utanríkisráðherrar Norðurlandanna heimsóttu í vikunni Nígeríu og Gana. Ráðherrarnir funduðu m.a. með utanríkisráðherrum beggja ríkja, forseta Gana, ECOWAS nefndinni og ýmsum félagasamtökum. Alþjóðaöryggismál, viðskipti, fjölþjóðlegt samstarf og grænar lausnir voru til umræðu og áhersla lögð á að efla samvinnu og viðskipti Norðurlanda og Afríkuríkja. 

 

Og þá að sendiskrifstofum okkar.

Harald Aspelund, sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi, opnaði ásamt Ásthildi Jónsdóttur listasýninguna Fossils from the Plastic Age eftir Rósu Gísladóttur í embættisbústaðnum í Helsinki.

  

Þá heimsótti starfsfólk Norræna Hússins embættisbústaðinn í Helsinki í námsferð þeirra til Finnlands.

  

Pride-fáninn prýðir nú sendiráðið í Kaupmannahöfn sem stendur nú í undirbúningi fyrir gleðigönguna í Kaupmannahöfn sem fer fram á laugardag. Starfsfólk sendiráðsins mun ganga ásamt öðrum sendiráðum undir slagorðinu "Diplomats for Equality" til stuðnings hinsegin-samfélagsins.

  

Benedikt Höskuldsson, sendiherra Íslands í Nýju-Delí, og Jagat Singh Negi, garðyrkjuráðherra Himachal Pradesh héraðsins á Indlandi, vígðu jarðvarmaorkuknúna ávaxta- og hnetuþurrkunarstöð í Kinnaur-héraði sem íslenska fyrirtækið Geotropy, í samvinnu við stjórnvöld í Himachal Pradesh, settu á laggirnar þann 13. ágúst 2024.  

Ólympíuleikunum í París lauk síðasta sunnudag en mikið hefur verið um að vera hjá sendiráðinu í París vegna leikanna. Þá bauð sendiráðið til að mynda forsætisráðherra, fulltrúum úr stjórn ÍSÍ, borgarstjóra, fyrrum borgarstjóra og fleiri góðum gestum til hádegisverðar í embættisbústaðnum í aðdraganda setningar Ólympíuleikanna. Starfsfólk sendiráðsins sótti ýmsa viðburði tengda leikunum og heilsaði upp á Ólympíufara. Við óskum þeim öllum til hamingju með frammistöðu sína á leikunum.

 

Ragnar Þorvarðarson, varamaður sendiherra í Tókýó, heimsótti veitingastaðinn Trader Vic's í Tókýó sem kynnti nýja lambaborgarann sinn sem er gerður úr íslensku lambakjöti í tilefni 50 ára afmæli veitingastaðarins.

 

Föstudagspóstinum lýkur að þessu sinni í Póllandi þar sem Friðrik Jónsson, sendiherra í Varsjá, fundaði með Piotr Grzenkowicz, forstjóra Eimskips Póllands.

  

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum