Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Netöryggi eflt með styrkjum Eyvarar NCC-IS

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, mun í haust veita netöryggisstyrki í gegnum Eyvöru NCC-IS. Eyvör er hæfnisetur fræðslu, menntunar og rannsókna á netöryggi og er markmið samstarfsins að efla netöryggisgetu á landsvísu, styðja við íslenskt netöryggissamfélag og að tryggja öflugt Evrópusamstarf á sviði netöryggismála.

Við styrkveitingu verður lögð áhersla á eftirfarandi þætti:

  • Efling netöryggismenningar og vitundar.
  • Hagnýt menntun, rannsóknir og þróun.
  • Örugg stafræn þjónusta og nýsköpun.
  • Öflug löggæsla, netvarnir og þjóðaröryggi.
  • Skilvirk viðbrögð við atvikum.
  • Sterkir innviðir, tækni og lagaumgjörð.

Hámarksstyrkur verkefna er 9 milljónir króna og gerð er krafa um 20% mótframlag frá styrkhöfum. Kynningarfundur á styrkjunum fer fram í Grósku, mánudaginn 26. ágúst klukkan 12. Á þeim fundi verður niðurstaða könnunar um áskoranir í netöryggi kynnt, sem framkvæmd var fyrr á árinu, ásamt kynningu á því hvernig sækja má um styrki og hvaða verkefni eru styrkhæf. Bæði úthlutunarreglur og handbók liggja fyrir á vef Rannís, sem unnið hefur náið með ráðuneytinu við að setja upp netöryggisstyrkina. Fyrirtæki sem og opinberir aðilar, með færri en 250 starfsmenn og veltu undir 50 milljónum evra eða efnahagsreikning undir 43 milljónum evra, geta sótt um styrkinn.

„Með þessum styrkjum er lagður grundvöllur að sterkara netöryggissamfélagi sem mun gagnast öllu íslenska samfélaginu. Þá er einnig möguleiki, gegnum þessa styrki, að auka við útflutning á íslensku hugviti með því að styðja við verkefni tengd netöryggi, en netöryggismál eru án landamæra. Styrkirnir munu því nýtast í nýsköpun og þróun á sviði netöryggis,“ segir Áslaug Arna, ráðherra netöryggismála.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta