Hoppa yfir valmynd
22. ágúst 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra skipar stýrihóp um fyrirkomulag eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum

Halla Sigrún Sigurðardóttir. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skipað stýrihóp um fyrirkomulag eftirlitskerfis með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum.

Í ágúst 2023 skilaði starfshópur undir forystu Ármanns Kr. Ólafssonar, sem ráðherra skipaði um fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum og matvælum af sér skýrslu þar sem lagðar voru til breytingar á fyrirkomulagi núverandi eftirlits. Niðurstöður þeirrar vinnu var að þörf væri á að einfalda fyrirkomulag eftirlits með hollustuháttum og mengunarvörnum. Stýrihópnum sem nú hefur verið skipaður, er  falið að rýna tillögur og ólíkar sviðsmyndir starfshópsins og koma með tillögu að þeirri sviðsmynd sem sé best til þess fallin að tryggja skilvirka framkvæmd eftirlits og einföldun á kerfinu. Þá á hópurinn að leggja drög að innleiðingu á miðlægu umsýslukerfi sem tryggja á samræmda framkvæmd frá móttöku umsóknar til framkvæmdar eftirlits.

Yfirstjórn hollustuhátta og mengunarvarna er í höndum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins og yfirstjórn matvælamála hjá matvælaráðuneytinu. Meginábyrgð á framkvæmd og samræmingu eftirlitsins er hjá Umhverfisstofnun og Matvælastofnun, en eftirlitið er einnig að verulegum hluta í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga. Um er því að ræða flókið samspil alls ellefu stofnana á tveimur stjórnsýslustigum ríkis og sveitarfélaga þar sem m.a. reynir á innleiðingu og framkvæmd umfangsmikillar EES-löggjafar.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Vandamál eftirlitsins í dag liggur í flóknu kerfi þar sem ábyrgðin liggur ýmist hjá sveitarfélögum eða ríkinu og er full þörf á að straumlínulaga kerfið. Stýrihópurinn sem nú hefur verið skipaður hefur það mikilvæga hlutverk að koma með tillögu að þeirri sviðsmynd sem er best til þess fallin að tryggja skilvirka framkvæmd eftirlits og leggja drög að innleiðingu á miðlægu umsýslukerfi.“

 

Stýrihópinn skipa þau:

  • Halla Sigrún Sigurðardóttir, formaður, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu
  • Kolbeinn Árnason, varaformaður, f.h. matvælaráðuneytis
  • Aðalsteinn Þorsteinsson, f.h. innviðaráðuneytis
  • Valgerður Rún Benediktsdóttir, f.h. Sambands íslenskra sveitarfélaga
  • Hörður Þorsteinsson, f.h. Samtaka heilbrigðiseftirlitssvæða á Íslandi
  • Benedikt S. Benediktsson, f.h. Samtaka atvinnulífsins

 

Stýrihópnum er falið að skila tillögum til ráðherra fyrir 1. nóvember 2024.

 


 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum