Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 23. ágúst 2024

Heil og sæl,

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar með yfirliti yfir helstu störf utanríkisþjónustunnar í vikunni.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti Færeyjar í vikunni þar sem tvíhliða samskipti og viðskipti Íslands og Færeyja voru í brennidepli. Með í för var viðskiptasendinefnd skipuð fulltrúum ellefu fyrirtækja auk Íslandsstofu.

  

Ráðherra hitti meðlimi breska flughersins í heimsókn sinni á öryggissvæðið í Keflavík. Þar flutti ráðherra ávarp ásamt Dr. Bryony Mathew sendiherra Bretlands þar sem mikilvægi loftrýmisgæslunnar og gott samstarf Íslands og Bretlands var ítrekað. 

Næsta mánudag hefst varnaræfingin Norður-Víkingur sem fer fram á Íslandi og hafsvæðinu kringum landið dagana 26. ágúst til 3. september. Megintilgangur æfingarinnar er að æfa varnir mikilvægra mannvirkja, varnir sjóleiða umhverfis Ísland, leit og björgun, gistiríkjastuðning og samhæfingu stofnana sem að verkefninu koma hér á landi. Um er að ræða reglubundna tvíhliða varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna með þátttöku fleiri vina- og bandalagsríkja.

 

Harald Aspelund, sendiherra Íslands gagnvart Finnlandi, hélt hádegisfyrirlestur í húsnæði ráðuneytisins á fimmtudag þar sem hann fjallaði um menningarstarfsemi sendiráðsins í Helsinki og hvernig smærri ríki geta í samstarfi við listafólk, beitt hinu mjúka valdi, eða ”soft power” í hagsmunagæslu sinni fyrir land og þjóð.

Í niðurstöðum árlegrar skoðanakönnunar sem Maskína gerir fyrir utanríkisráðuneytið sem gefin var út í vikunni kom fram að meira en 90% landsmanna telja mikilvægt að Íslands hafi gott orðspor í alþjóðasamfélaginu. Þá er stór meirihluti landsmanna jákvæður fyrir alþjóðasamstarfi Íslands. Utanríkisþjónustan fagnar þessum niðurstöðum.

  

Og þá beinum við sjónum að helstu störfum sendiskrifstofa okkar um víða veröld.

Jörundur Valtýsson, nýr fastafulltrúi Íslands gagnvart NATO, afhenti Mircea Geoana, aðstoðarframkvæmdastjóra NATO, trúnaðarbréf sitt í Brussel í vikunni.

Tekið var á móti forsetum þingja Norðurlandanna og Eystrasaltsríkja í Lettlandi í vikunni en þetta er í fyrsta skipti sem forsetar þingjanna hafa hist eftir að öll Norðurlönd og Eystrasaltsríki hafa gengið í NATO. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, sótti fundinn fyrir Íslands hönd.

  

Ragnheiður Bragadóttir, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, hlaut í gær norrænu lögfræðiverðlaunin fyrir rannsóknir sínar. Í tilefni var haldinn kvöldverður til að fangna árangri Ragnheiðar þar sem sendiherrahjónin Pétur Ásgeirsson og Jóhanna Gunnarsdóttir óskuðu henni til hamingju.

  

Meistara- og doktorsnemar frá Háskóla Íslands og Háskólunum í Tromsö, Helsinki, Manchester, Amsterdam og Osló heimsóttu aðalræðisskrifstofu Íslands í Nuuk og til þess að fræðast um samskipti og samstarf Íslands og Grænlands.

  

Friðrik Jónsson, sendiherra Íslands gagnvart Póllandi tók á móti Maciej Duszyński, nýjum sendifulltrúa Póllands í sendiráðinu í Varsjá. Ræddu þeir samband og samvinnu Íslands og Póllands, einkum á vettvangi NATO.

  

Sendiherrann tók einnig á móti forstjóra Marel í Mið-Evróðu, Wlodzimierz Wrobel, í sendiráðinu og styrkti tengsl sendiráðsins við fulltrúa íslenskra fyrirtækja í Póllandi.

Fleira var það ekki að sinni.

Við óskum ykkur góðrar helgar og vonum að þið njótið á Menningarnótt.

Upplýsingadeild

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum