Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2024 Dómsmálaráðuneytið

Norrænt samráð um innflytjendamál​

Norrænir ráðherrar sem fara með innflytjendamál: Kaare Dybvad Bek frá Danmörku, Maria Malmer  Stenergard frá Svíþjóð, Emilie Enger Mehl frá Noregi,  Antti Salminen frá Finnlandi og Guðrún Hafsteinsdóttir frá Íslandi.  - mynd

Norrænir ráðherrar  hittust í Noregi 15. og 16. ágúst og ræddu málefni sem tengjast alþjóðlegri vernd og fólksflutningum.

Meðal þess sem var rætt var hvernig beita megi vegabréfsáritunarstefnu til þess að hafa áhrif á endursendingar og endurviðtöku þriðju ríkja á eigin ríkisborgurum sem og hvernig megi koma í veg fyrir misnotkun á sameiginlegu vegabréfsáritunarkerfi okkar til að vernda ytri landamæri Schengen svæðisins og verndarkerfið. Ráðherrarnir álíta það forgangsverkefni að koma í veg fyrir tilhæfulausar umsóknir um alþjóðlega vernd frá einstaklingum frá ríkjum sem eru undanþegin vegabréfsáritun eða einstaklingum sem fengið hafa útgefna Schengen-áritun.

Ráðherrarnir lýstu einnig áhyggjum í kjölfar nýlegra frétta af ákvörðun Ungverjalands um að auðvelda aðgang ríkisborgara Rússlands og Belarús að Schengen-svæðinu. Norrænu ráðherrarnir, ásamt utanríkisráðherrum og samstarfsmönnum í Eystrasaltsríkjunum, sendu því sameiginlegt bréf til framkvæmdastjóra ESB þar sem áhyggjum er lýst af því að ákvörðunin geti ógnað öryggi Schengen-svæðisins.

Ráðherrarnir ræddu einnig hvernig norrænu löndin geta unnið saman að því að stuðla að bættri enduraðlögun og skilvirkari endursendingum, hvernig eigi að takast á við flóttafólk frá Úkraínu í sameiningu, sem og þrýstinginn á sameiginleg ytri landamæri okkar, og þá ekki síst þegar umsækjendur um vernd eru fluttir að landamærum Evrópu og þannig misnotaðir í pólitískum tilgangi.

Umfangsmikill fjöldi umsókna um vernd berast Evrópu frá einstaklingum með Schengen-vegabréfsáritun eða frá einstaklingum frá ríkjum sem eru undanþegin vegabréfsáritun. Sameiginlegt átak er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir þetta í framtíðinni. Það eru sameiginlegir hagsmunir okkar að koma í veg fyrir misnotkun á vegabréfsáritunarkerfinu, segja norrænu ráðherrarnir.

Samtal ráðherranna snerist einnig um innleiðingu Verndar- og fólksflutningssamkomulag ESB og nýstárlegar lausnir við meðferð umsókna um alþjóðlega vernd og samvinnu við þriðju ríki.

Norðmenn voru gestgjafar norræns ráðherrafundar í ár í samstarfi háttsettra embættismanna um málefni flóttamanna (NSHF). Fundirnir eru haldnir á hverju ári og eru skipulagðir af því norræna ríki sem fer með formennsku í NSHF hverju sinni. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi þess að halda áfram nánu samstarfi og viðræðum um þessi mál.

(Mynd: The Norwegian Ministry of Justice and Public Security. License information)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta