Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2024 Dómsmálaráðuneytið

Ráðherra hittir bjargvætti úr þyrlubjörgunarsveit

Gary Copsey flugstjóri, Sigmar Björnsson úr áhöfn Goðans, Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra, John Blumentritt flugstjóri og Gary Henderson flugmaður.  - mynd

Dómsmálaráðherra efndi nýlega til móttöku fyrir bandarísku þyrlubjörgunarsveitina sem vann einstakt afrek í Vöðlavík fyrir 30 árum.

Við gríðarlega erfiðar aðstæður tókst áhöfn HH-60 Pave Hawk þyrlu varnarliðsins að bjarga sex skipverjum af dráttarbátnum Goðanum sem rak vélarvana upp í grynningar í Vöðlavík eftir að hafa fengið á sig brot. Goðinn hafði verið kallaður til þegar Bergvík VE strandaði rétt við mynni Eskifjarðar. Björgunarsveitarmenn á Austurlandi reyndu að koma áhöfn Goðans, sem hafðist við á þaki skipsins, til bjargar en náðu ekki til þeirra, og þá þurftu þyrlur Landhelgisgæslunnar frá að hverfa vegna veðurs. Einn skipverja Goðans tók út áður en þyrlan kom til hjálpar.

Tvær þyrlur varnaliðsins komust að lokum á vettvang og tókst að hífa sex skipverja Goðans um borð. Að því loknu var þyrlunum lent í miðbæ Neskaupstaðar, þar sem ekki var fært til lendingar á flugvellinum á Egilsstöðum. Fjórir meðlimir þyrlusveitarinnar komu til Íslands í tilefni af því að þrjátíu ár eru liðin frá þessu einstæða björgunarafreki. Ráðherra flutti stutt erindi við þetta tækifæri og sagði meðal annars:

"Við Íslendingar munum aldrei geta fullþakkað þetta frækilega afrek ykkar þann 10. janúar 1994. Það er ykkur að þakka að sex af sjö mönnum Goðans gátu snúið heim til fjölskyldna sinna eftir þennan örlagaríka dag. Þeir, og við Íslendingar allir, gleymum ykkur aldrei. 

Í ljósi þessa atburðar var íslenskum stjórnvöldum ljóst að það væri lífsnauðsynlegt að bæta þyrlukost Landhelgisgæslunnar og í kjölfarið voru keyptar til landsins öflugri og stærri þyrlur. Þær hafa margsannað sig síðan við hin ýmsu björgunarstörf og hafa fært okkur sönnun þess að í landi vályndra veðra og stöðugra náttúruhamfara er öflugur tækjakostur og vel þjálfað fólk okkar eina viðbragð í baráttu okkar við oft og tíðum grimm náttúruöflin."

Að loknum erindum færði ráðherra björgunarmönnunum lítinn þakklætisvott fyrir þeirra einstaka afrek.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta