Hoppa yfir valmynd
3. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Sameining sjóða í samráðsgátt

Sameining sjóða í samráðsgátt - myndUnsplash / ThisisEngineering RAEng

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur birt áform um sameiningu sjóða í samráðsgátt stjórnvalda. Samhliða því að fækka sjóðum á málefnasviðum ráðuneytisins úr átta í þrjá fela áformin einnig í sér að skerpa á hlutverki Rannís þannig að það endurspegli betur raunverulegt hlutverk stofnunarinnar í dag, í samræmi við lög um Vísinda- og nýsköpunarráð. 

Áhugasöm geta sent inn umsagnir um áformin með því að smella hér en þar má jafnframt nálgast nánari upplýsingar. Umsagnarfrestur rennur út miðvikudaginn 18. september. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, kynnti sameiningaráformin í febrúar síðastliðnum. Áformin byggja á greiningu ráðuneytisins sem sýndi fram á að sameiningar sjóða og ein umsóknargátt fyrir alla sjóði geti aukið árangur og skilvirkni opinberra samkeppnissjóða á Íslandi svo um munar. Sjóðirnir sem um ræðir eru: Rannsóknasjóður, Tækniþróunarsjóður, Innviðasjóður, Markáætlun á sviði vísinda, tækni og nýsköpunar, Starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna, Nýsköpunarsjóður námsmanna, Lóa nýsköpunarstyrkir og Fléttan nýsköpunarstyrkir.  

„Við höfum þegar sameinað Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóð, og nú höldum við ótrauð áfram í átt að skilvirkara, einfaldara og árangursríkara sjóðaumhverfi hér á landi. Mikil tækifæri eru til hagræðingar í umsýslu sjóðanna m.a. með nýrri sjóðagátt og færri sjóðum. Ég hefst handa á sjóðum ráðuneytisins og sé tækifæri til enn meiri sameininga þvert á ráðuneyti. Það er óboðlegt að umsýslukostnaður hjá ríkinu sé hátt í milljarður á ári hverju,“ segir Áslaug Arna.

Skref í átt að aukinni samkeppnishæfni

Sem fyrr segir stefnir ráðuneytið að því að sameina átta sjóði í þrjá meginsjóði og ná þannig fram meiri skilvirkni, gagnsæi og sveigjanleika í starfsemi sjóðanna; svo sem varðandi fjármögnun, tímalengd styrkja og stærð sjóðanna. 

Áhersla verður lögð á að fjármagna bestu hugmyndirnar alla leið að sjálfstæði. Á sama tíma séu þó til staðar öflugir grunnrannsókna- og nýsköpunarsjóðir til að styðja við grasrótina; t.d. með fjármögnun doktorsnema og ungra sprotafyrirtækja. Með því móti hyggst ráðuneytið stuðla enn frekar að því að Íslandi státi af alþjóðlega samkeppnishæfu umhverfi rannsókna og nýsköpunar. 

Minni umsýsla og sjóðagátt

Árið 2022 nam heildarumsýslukostnaður sjóða á vegum ráðuneytanna a.m.k. 840 milljónum króna auk kostnaðar við vinnu starfsmanna ráðuneyta og annarra opinberra aðila. Lækkun umsýslukostnaðar sem hlytist af þessum sameiningum myndi ráðast af endanlegri útfærslu, en ætla má að lækkunin næmi tugum milljóna.

Enn fremur vinnur ráðuneytið í samstarfi við fjármála- og efnahagsráðuneytið að því að opna svokallaða sjóðagátt þar sem upplýsingar um sjóði og umsóknarfresti verða færðar á sameiginlega heimasíðu sem verður hluti af island.is. Með þessu verður sýnileiki allra sjóða hins opinbera aukinn og umsækjendur eiga auðveldara með að finna réttan farveg fyrir hugmyndir sínar. Sjóðagáttin verður aðgengileg fyrir alla sjóði óháð ráðuneytum og hafa þeir þá val um hvort þeir nýta sér hana.

Skýrara hlutverk Rannís

Samhliða breytingum á sjóðum verður hlutverk Rannís skýrt betur þannig að lögin endurspegli raunverulegt hlutverk stofnunarinnar en í dag sinnir Rannís umsýslu og þjónustu við fjölmarga sjóði á sviði rannsókna, nýsköpunar, menntunar og menningar. Rannís sinnir að sama skapi veigamiklu alþjóðastarfi tengt helstu samstarfsáætlunum sem Ísland tekur þátt í. 

Rannís sinnir til að mynda fjölda verkefna fyrir önnur ráðuneyti, heldur utan um aðra samkeppnissjóði sem og réttindasjóði eins og endurgreiðslur til rannsókna- og þróunarfyrirtækja og endurgreiðslur tekjuskatts til erlendra sérfræðinga. Markmið breytinganna er að einfalda umgjörð sjóða sem heyra undir ráðuneytið og skýra ábyrgð hinna ýmsu aðila í stefnumótun og framkvæmd þeirrar starfsemi sem fellur undir ábyrgðarsvið laganna. 

Þá verði framkvæmd sjóðanna samræmdari sem og stjórnskipulag þeirra, fjármögnun og umsýsla. Jafnframt er stefnt að því að aðlaga ákvæða sem varða hlutverk og verkefni Rannís þannig að stofnunin annist umsýslu opinberra sjóða, sinni þjónustu við þekkingarsamfélagið, gagnaöflun og greiningu á sviði vísinda og nýsköpunar innanlands og í tengslum við fyrrnefndar samstarfsáætlanir.

Áformin má nálgast í samráðsgátt stjórnvalda með því að smella hér.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta