Hoppa yfir valmynd
3. september 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Vestfirðir í sókn - samstarf um innviðauppbyggingu

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra, Þorsteinn Másson, Guðmundur Fertram Sigurjónsson og Gauti Geirsson við undirritun samstarfssamningsins. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða og Þorsteinn Másson, framkvæmdastjóri Bláma, undirrituðu í gær samstarfssamning milli nýstofnaðs Innviðafélags Vestfjarða og Bláma. Undirritunin fór fram á opnum fundi í Vestfjarðarstofu.

Atvinnulífið á Vestfjörðum hefur margfaldast að stærð á undanförnum árum, með auknum umsvifum og fjárfestingu í nýsköpun, lagareldi og þjónustu. Velta atvinnulífsins á Vestfjörðum þrefaldaðist á árunum 2016-2023, og er hækkandi húsnæðisverð og aðflutningur á svæðið til marks um aukna virkni á svæðinu.

Samstarfssamningur Bláma við Innviðafélag Vestfjarða nær til greininga og ráðgjafar tengda framtíðarverkefnum Innviðafélagsins og mun Innviðafélagið kosta þá vinnu. 

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Við höfum lagt áherslu á að styðja við Vestfirði á undanförnum misserum, bæði með skýrslu sem unnin var í fyrra undir forystu Einars K. Guðfinnssonar og á vettvangi Bláma. Það er ánægjulegt að undirrita formlegt samstarf Bláma og Innviðafélags Vestfjarða, sem stofnað var að frumkvæði Guðmundar Fertram, og samanstendur af öllum stærstu fyrirtækjum Vestfjarða. Verkefnin sem heyra undir þessi félög munu styrkjast af þessu samstarfi. Það er skynsamlegt að skoða samgöngu- og orkuinnviði í samhengi. Á sama tíma og við verðum að taka á orkuinnviðum heildstætt þá verðum við líka að líta til einstakra svæða. Þetta samstarf mun styrkja Vestfirði. Vestfirðir þurfa bæði græna orku og góða samgönguinnviði til að vera samkeppnishæf í framtíðinni.“

Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis og talsmaður Innviðafélags Vestfjarða: „Það er sóknarhugur í okkur Vestfirðingum. Efnahagsævintýri Vestfjarða er raunverulegt og sá vöxtur nýtist þjóðarbúinu. Hins vegar kallar áframhaldandi verðmætasköpun og vöxtur á stóraukinn kraft í uppbyggingu samgönguinnviða fjórðungsins. Við trúum því að öflugir innviðir séu forsenda sterkra samfélaga. Finna verður leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða Vestfjarða og greiða þannig niður háa innviðaskuld fjórðungsins. Lélegir samgöngu- og orkuinnviðir hamla áframhaldandi verðmætasköpun, vöxt og velsæld Vestfjarða. Það kallar á samstarf atvinnulífs, íbúa og hins opinbera.“

Innviðafélag Vestfjarða er nýstofnað félag sem mun draga fram mikilvægi þess að flýta uppbyggingu og fjármögnun samgönguinnviða á Vestfjörðum og benda á leiðir til þess. Að baki félaginu standa kraftmikil fyrirtæki á Vestfjörðum úr öllum atvinnugreinum sem vilja tryggja vöxt og velsæld samfélagsins.

Blámi nýsköpunarfélag á sviði orkunýtingar er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Orkubús Vestfjarða, Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Vestfjarðastofu. Félaginu er ætlað að ýta undir og styðja við orkuskipti í samgöngum og sjávartengdum iðnaði. Blámi leiðir þannig saman einstaklinga og fyrirtæki sem geta unnið saman við það að afla alþjóðlegs fjármagns til tilrauna, rannsókna og þróunar á orku- og loftslagsvænum lausnum. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum