Hoppa yfir valmynd
4. september 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Mennta- og barnamálaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

RÚV Orð formlega tekið í notkun: Nýtt tæki til íslenskunáms fyrir innflytjendur

Vefurinn RÚV Orð er nú opinn öllum. - mynd

RÚV Orð, nýr vefur sem veitir innflytjendum aðgang að fjölbreyttu íslenskunámi í gegnum sjónvarpsefni frá RÚV, hefur nú verið formlega opnaður fyrir almenning. Eftir vel heppnaðar notendaprófanir er RÚV Orð nú aðgengilegt öllum sem vilja efla íslenskukunnáttu sína á sínum hraða.

Verkefnið er afrakstur samstarfs menningar- og viðskiptaráðherra, félags- og vinnumarkaðsráðherra og mennta- og barnamálaráðherra ásamt RÚV við Språkkraft, óhagnaðardrifið sænskt félag sem hefur þróað nýstárlega máltæknilausn þar sem notendur velja eigið færnistig í tungumálinu. 

Fjölbreytt efni nýtt í námið

RÚV Orð bætir verulega aðgengi innflytjenda að íslenskukennslu, þar sem fólk getur lært á eigin forsendum og á eigin hraða. Notendur eiga möguleika á að velja sjónvarpsefni úr fjölbreyttri dagskrá RÚV og tengja það við sitt eigið tungumál; valið stendur á milli ensku, frönsku, þýsku, lettnesku, litáísku, pólsku, rúmensku, spænsku, taílensku og úkraínsku. Notendur geta svo stillt íslenskufærni sína eftir sex færnistigum Evrópska tungumálarammans, frá byrjendum upp í að geta auðveldlega lesið nánast allt ritað mál á íslensku.

„RÚV Orð mun stórbæta möguleika innflytjenda til að læra íslensku. Það gleður mig að hægt sé að nýta það dýrmæta menningarefni sem verður til hjá RÚV í íslenskukennslu fyrir innflytjendur og til að auðvelda þessum hópi að fylgjast kynnast íslensku samfélagi og menningu,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra. 

Viðmót notenda er þægilegt og gagnvirkt, þar sem þeir geta leyst verkefni, vistað orð til að læra síðar, og fylgst með framvindu sinni. Litakóðaður íslenskur texti á skjánum auðveldar notendum að fylgjast með því sem fer fram og skapar einstaklingsmiðaða reynslu sem hvetur til virkrar þátttöku.

Niss Jonas Carlsson, stofnandi Språkkraft (fyrir miðju), kom hingað til lands í sumar til að hefja notendaprófanir á lausninni.

 „RÚV Orð eykur verulega fjölbreytni efnis. Það svarar ákalli innflytjenda og hjálpar þeim að tileinka sér íslensku. Námið hentar mismunandi aldurshópum, það er persónubundið, stundað á eigin forsendum og hægt er að læra af efni á áhugasviði viðkomandi. Góð íslenskukunnátta er valdeflandi og jafnar tækifæri til náms og virkrar þátttöku á öllum sviðum samfélagsins. Framtakið er metnaðarfullt og velkomin viðbót í íslenskukennslu fyrir innflytjendur á öllum aldri,“ segir Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra.

Markmið RÚV Orð er að stuðla að inngildingu fólks með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn í íslensku samfélagi. Verkfærið tryggir aðgang að stafrænni tungumálaþjálfun sem byggð er á fjölbreyttu og áhugaverðu efni úr miðlum RÚV. Með þessu eykst aðgengi innflytjenda að íslensku samfélagi og lýðræðislegri umræðu, sem mun styrkja stöðu þeirra í samfélaginu.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra: „RÚV Orð gjörbreytir möguleikum innflytjenda til að fylgjast með íslenskum fréttum, pólitík og samfélagsumræðu. Þannig er ekki einungis um afar sniðugt tungumálanám að ræða heldur gegnir RÚV Orð mikilvægu hlutverki við inngildingu fólks í íslenskt samfélag.“

Með RÚV Orð er stigið stórt skref í átt að því að íslenskan verði aðgengilegri fyrir alla – hvar sem er og hvenær sem er.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta