Hoppa yfir valmynd
6. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjarskiptastrengir og gagnaver á teikniborðinu

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, greindi frá áformum um uppbyggingu gervigreindargagnavera hér á landi á fundi ríkisstjórnar í morgun. Áformin fela meðal annars í sér lagningu fjarskiptasæstrengja sem myndu efla tengingar milli Íslands, Norður-Ameríku og Evrópu. Stefnt er að því að fyrsti áfangi verkefnisins verði tekinn í notkun árið 2026 og að framkvæmdum verði að fullu lokið árið 2028.

Tvö fyrirtæki standa að boðaðri uppbyggingu. Annars vegar hið bandaríska Modularity, sem sérhæfir sig m.a. í þróun fjarskiptastrengja neðansjávar, og hins vegar Borealis Data Center, sem rekur gagnaver á Íslandi. Gangi áform þeirra eftir má ætla að fjarskiptaöryggi Íslands muni aukast, sem og samkeppnishæfni landsins á sviði stafrænna lausna.

„Áform sem þessi sýna glöggt hvað við stöndum frammi fyrir mörgum tækifærum á þessu sviði. Veðurfar, mannauður og lega landsins gera Ísland að ákjósanlegum stað fyrir uppbyggingu af þessum toga sem stuðla mun að öflugra þekkingarsamfélagi hér á landi til framtíðar. Reikniafl er innviður  framtíðar sem skiptir miklu máli er kemur að samkeppnishæfni þjóðar til lengri tíma. Ég taldi því rétt að upplýsa ríkisstjórnina um áformin í ljósi þeirra jákvæðu áhrifa sem þau gætu haft á fjarskiptaöryggi landsins og innlendan hugverkaiðnað, ef af þeim verður. “ segir Áslaug Arna.

Styður við markmið stjórnvalda

Meðal aðgerða sem tíundaðar eru í drögum að aðgerðaáætlun í málefnum gervigreindar, sem ráðuneytið hyggst kynna á næstu mánuðum, er að greina þörf fyrir styrkingu stafrænna innviða á Íslandi til að stuðla að frekari uppbyggingu á þessu sviði. Nýlegar framfarir í gervigreind hafa aukið verulega eftirspurn eftir reikniafli og hýsingu í gagnaverum á meðan eftirspurn eftir slíkri þjónustu fyrir rafmyntagröft hefur minnkað.

Samstarfið sem hér um ræðir styður vel við fyrrgreinda aðgerð og er til þess fallið að auka áreiðanleika og framboð gagnaflutninga til og frá Íslandi. Þar að auki má telja að áform fyrirtækjanna myndu hafa jákvæð áhrif á þróun stafrænnar tækni, upplýsingatækniinnviða og hugverkaiðnaðar hérlendis. Slíkt rímar vel við þá stefnu stjórnvalda að hugvitið verði stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar.

Auknar tengingar við útlönd

Sem fyrr segir felur verkefnið í sér lagningu nýrra fjarskiptasæstrengja. Með lagningu þessara sæstrengja gæti Ísland gegnt lykilhlutverki í alþjóðlegum tengingum milli Norður-Ameríku og Evrópu. 

Í þingsályktun um stefnumótandi aðgerðir til eflingar þekkingarsamfélagi á Íslandi til ársins 2025, sem samþykkt var á Alþingi þann 15. desember 2023, segir meðal annars að með hverjum nýjum fjarskiptasæstreng aukist öryggi fjarskipta. Fleiri tengingar gætu þannig virkað sem varaleiðir ef rof yrði á einum eða fleiri sæstrengjum sem tengja Ísland við umheiminn. Sæstrengirnir geti jafnframt aukið samkeppnishæfni Íslands á sviði stafrænna lausna og þjónustu, eins og gagnavera og ofurtölva. Töluverð tækifæri geta því falist í lagningu fleiri sæstrengja milli Íslands, Norður-Ameríku og Evrópu.

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið hefur fengið kynningu á áformunum en engin skuldbinding liggur fyrir af hálfu ráðuneytisins. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta