Velheppnaðri varnaræfingu Íslands og Bandaríkjanna lokið
Varnaræfingunni Norður-Víkingur 2024 lauk í vikunni, eftir ellefu daga árangursríka samvinnu Íslands, Bandaríkjanna og annarra bandalagsríkja Atlantshafsbandalagsins. Þar var meðal annars lögð áhersla á öflugar varnir lykilinnviða, skjótan flutning á mannafla og búnaði til landsins og samhæfingu bandalagsþjóða.
„Æfingin sendir sterk skilaboð um varnarskuldbindingar og gefur mikilvægt tækifæri til að treysta samstarf íslenskra stofnana við okkar nánustu bandamenn svo við getum tekist sameiginlega á við áskoranir og ógnir hvort heldur þær eru á hernaðarsviðinu eða vegna meiriháttar náttúruhamfara eða annarra áfalla,“ sagði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra í ávarpi er hún heimsótti öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli þar sem æfingin fór meðal annars fram.
Um 1.200 manns, þar af um 200 Íslendingar, tóku þátt í æfingunni að þessu sinni sem er haldin á grundvelli tvíhliða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og fer að jafnaði fram á tveggja ára fresti.
Fjöldi herskipa, meðal annars úr fastaflota Atlantshafsbandalagsins, sinnti æfingunni á sjó auk starfsmanna Landhelgisgæslunnar um borð í varðskipunum Freyju og Þór.
Þá nýttu lykilstofnanir á Íslandi með aðkomu að varnar- og öryggismálum, það er varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins, Landhelgisgæslan, embætti ríkislögreglustjóra og Landspítalinn, æfinguna til að þjálfa eigin samhæfingu sem og samvinnu við heri bandalagsríkja.
Þátttakendur í æfingunni í ár komu frá níu ríkjum en þau eru, auk Íslands og Bandaríkjanna, Danmörk, Frakkland, Holland, Noregur, Pólland, Portúgal og Þýskaland.