Hoppa yfir valmynd
10. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Árangursríkur fundur stjórnarnefndar Bologna-samstarfsins á Íslandi

Fulltrúar stjórnarnefndarinnar fyrir utan Reykjastræti. - mynd

Stjórnarnefnd Bologna-samstarfsins um háskólamál hittist í Reykjavík í liðinni viku til að undirbúa verkefnaáætlun til ársins 2027. Ísland fer með forystu í samstarfinu á haustmisseri 2024, í samstarfi við Ungverja, og ber ábyrgð á að koma af stað vinnu á nýju starfstímabil. Markmiðið er að tryggja að sýn ráðherranna, sem var samþykkt á fundi í Tirana í vor, nái fram að ganga. 

Í drögum að verkáætluninni sem unnin var á fundinum eru kynntar endurnýjaðar áherslur á hreyfanleika stúdenta, á stefnumörkun til framtíðar og á mikilvægi alþjóðasamvinnu háskóla. Þá var innleiðing á matskerfi á félagslegri vídd og grunngildum háskóla jafnframt til meðferðar á fundinum, sem má betur fræðast um í skýrslu sem lögð var fram á fyrrnefndum ráðherrafundi í Tirana.

Fundur stjórnarnefndarinnar var fyrsti alþjóðlegi viðburðurinn sem háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið býður til í nýju húsnæði ráðuneytisins að Reykjastræti og var vel látið af aðstöðunni þar.

Nánar um Bologna-samstarfið

Megintilgangur Bologna-samstarfsins er að mynda samevrópskt háskólasvæði þar sem hreyfanleiki nemenda og háskólakennara er gerður auðveldari. Áhersla er lögð á skilvirkt innra eftirlit og mat á öllu námi til að stuðla að sem mestu samræmi milli skóla og landa. Einnig er lögð áhersla á sameiginleg gildi háskólastarfs innan Evrópu; svo sem akademískt frelsi, sjálfstæði stofnana og rétt nemenda og starfsmanna við háskóla í lýðræðislegri samfélagsumræðu.

Ísland var á meðal þeirra 29 Evrópuríkja sem undirrituðu Bologna-yfirlýsinguna þann 19. júní 1999 um samstarf á sviði háskólamenntunar. Samevrópska háskólasvæðið (e. European Higher Education Area (EHEA)) var stofnað árið 2010 á tíu ára afmæli Bologna-ferlisins. Aðildarríki Bologna-ferlisins eru nú 49 (47 virk ríki, en þátttaka Rússlands og Belarus hefur verið fryst frá 2022), en einnig koma að því ýmis hagsmunasamtök (t.d. samtök evrópskra stúdenta, samtök evrópskra háskóla og samtök atvinnurekenda í Evrópu), fulltrúar Evrópuráðsins og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, auk aðila frá evrópskum gæðamatsstofnunum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta