Hoppa yfir valmynd
10. september 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Fjárlagafrumvarp 2025: Áfram stutt við menningu á umfangsmikinn hátt

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra. - myndÍris Dögg

Kröftuglega verður stutt við menningu og listir í landinu með umfangsmiklum hætti skv. frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2025. Samtals munu framlög til menningarmála og skapandi greina nema tæpum 26,7 milljörðum króna árið 2025. Undir málaflokkinn heyra söfn, menningarstofnanir og menningarsjóðir á vegum ríkisins á málefnasviði 18, endurgreiðslukerfi í kvikmyndum og tónlist og málefni hönnunar- og arkitektúrs á málefnasviði 7.

Áfram verður unnið að innleiðingu ýmissa stefna á sviði menningarmála, má þar nefna kvikmyndastefnu, tónlistarstefnu, myndlistarstefnu og stefnu í málefnum hönnunar- og arkitektúrs. Þá hefst innleiðing á bókmenntastefnu og sviðlistastefnu.

Helstu aðgerðir:

  • Íslensk tunga: Aðgerðaáætlun í 22 liðum kemur til framkvæmdar.
  • Kvikmyndasjóður: Menningarframlag sett á laggirnar sem styrkir sjóðinn til framtíðar.
  • Þjóðarópera: Komið á laggirnar í samræmi við stjórnarsáttmála.
  • Starfslaunasjóðir listamanna efldir: Tveir nýir sjóðir verða að veruleika; launasjóður kvikmyndahöfunda og Vegsemd, fyrir listamenn 67 ára og eldri.
  • Öflug endurgreiðslukerfi: Áfram stuðlað að samkeppnishæfum endurgreiðslukerfum í kvikmynda- og tónlistagerð.

Tæpir 3,3 milljarðar í menningarsjóði

Framlög til sjóða á sviði menningarmála, sem eru 14 talsins, munu nema um 3,3 milljörðum króna árið 2025. Er það lækkun um 99,3 m.kr og skýrist af sértæku aðhaldi á samkeppnissjóði á árinu 2025 sem gengur þvert yfir öll ráðuneyti til að styðja við markmið opinberra fjármála um aðhald í ríkisrekstri til að ná niður verðbólgu og þar með stýrivöxtum í landinu. Munu sjóðirnir hins vegar áfram búa yfir getu til þess að styðja við öflugt menningarlíf í landinu.

Menningarframlag í Kvikmyndasjóð færist nær

Gert er ráð fyrir að innleiðing á svokölluðu menningarframlagi muni hefjast á árinu 2025 og að það fari að skila Kvikmyndasjóði fjármunum á árinu 2026, en áætlað er að framlagið muni skila sjóðnum 260 m.kr. á ári.

Með menningarframlaginu verður lögfest ný skylda á hendur streymisveitum til að greiða fjárframlag, sem rennur til Kvikmyndasjóðs, og nemur að hámarki 5% af áskriftartekjum af starfsemi streymisveitunnar á Íslandi á ársgrundvelli eða skyldu til að fjárfesta með beinum hætti í framleiðslu í innlendu hljóð- og myndefni. Streymisveitur sem uppfylla skilyrði um lágmarksfjárfestingu í framleiðslu á íslensku efni verða því undanþegnar framlaginu. Ýmis ríki í Evrópu hafa innleitt svipað fyrirkomulag til þess að efla innlenda menningu og tungu.

,,Það hefur gengið vel á undanförnum árum að efla umgjörð menningarmála með margháttuðum þætti. Ég er stolt af þeim árangri sem náðst hefur og þeirri velgengni sem íslensk menning hefur átt að fagna bæði innanlands sem og erlendis. Sýnin til framtíðar er skýr: Við ætlum að halda áfram að standa með íslenskri menningu,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum