Hoppa yfir valmynd
10. september 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hættu á heitavatnsleysi á Suðurnesjum afstýrt

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

Með kröftugu átaki stjórnvalda við lághitaleit á Reykjanesi, hefur sá árangur náðst að hættu á heitvatnsleysi er afstýrt, jafnvel þótt Svartsengis nyti ekki við. Þetta kom fram í kynningu á stöðu jarðhitamála á Suðurnesjum sem umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið stóð fyrir. 

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, kynnti á fundinum árangur af sérstakri jarðhitaleit á Reykjanesi, sem fram hefur farið á síðustu mánuðum. Staða orkumála á Suðurnesjunum og afhendingaröryggi hefur verið töluvert í sviðsljósinu frá því jarðhræringar hófust í nágrenni Grindavíkur. Þegar svokölluð Njarðvíkurlögn frá Svartsengi fór í sundur í febrúar á þessu ári raungerðist sú erfiða staða að Suðurnesin voru heitavatnslaus.

Í kjölfarið tóku stjórnvöld forystu um leit að heitu vatni á Reykjanesi. Lagður var til 1 milljarður kr. í jarðhitaleit á eignarlandi ríkisins á Suðurnesjum til að tryggja neyðarhitaveitu á svæðinu. Rannsókn sem ÍSOR fór í framhaldi í á þremur rannsóknarborholum, í  samvinnu við orku- og veitufyrirtæki á svæðinu, hefur sýnt að með þeim megi halda Reykjanesbæ, Vogum og Suðurnesjabæ frostfríum. Eru vinnsluholurnar líklegar til að anna lágmarksnotkun á svæðinu til skemmri tíma. Þá er það mat ÍSOR að svæðið við Rockville sé einnig efnilegt til frekari boranna og að vinnsla þaðan geti orðið mikilvægur þáttur í orkuöflun í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ í náinni framtíð. Mikilvægt sé þó að viðhalda kröftugu rannsóknarstarfi, bæði þar og annars staðar á landinu.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur falið ÍSOR gerð nýs jarðvarmamats fyrir Ísland, en slíkt heildstætt mat hefur ekki verið unnið í hartnær 40 ár. Þá stóð Orkusjóður árið 2023, að beiðni ráðherra fyrir jarðhitaleitarátaki á rafhituðum svæðum. Um var að ræða fyrsta jarðhitaleitarátakið sem ráðist var í í 15 ár og alls hlutu átta verkefni styrk að upphæð um 447 milljónir króna.

Á undanförnum misserum hefur náðst mjög góður árangur við jarðhitaleit. Nægir þar að nefna Ísafjörð, Selfoss og nú síðast Miðnesheiði. Áfram er unnið að slíkum verkefnum víða um land.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: Eftir áratuga kyrrstöðu höfum við fundið heitt vatn um allt land. Þá hefur jarðhitaleit á Reykjanesi skilað okkur því að ef lögnin frá Svartsengi fer í sundur vegna eldsumbrota, þá getum við haldið öllum húsum frostfríum. Við munum halda áfram að leita að heitu vatni um allt land og vinna áfram með jarðhitakostina á Reykjanesi. Jarðhitinn er ein af okkar verðmætustu náttúruauðlindum. Hann er náttúrunni hagfelldur, eflir gæði samfélaga og er efnahagslega hagkvæmur kostur.

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR: „Jarðhitinn er ein af helstu auðlindum okkar Íslendinga og í raun ein grunnstoða okkar miklu lífsgæða. Með auknum íbúafjölda og áherslu á orkuskipti er enn mikilvægara en nokkru sinni að við leggjum mikla áherslu og kraft í rannsóknir á þessari mikilvægu auðlind, ásamt eftirliti með nýtingu hennar.“

Árni Magnússon, forstjóri ÍSOR, kynnir árangur af sérstakri jarðhitaleit á Reykjanesi.

Á Íslandi eru yfir 200 þekkt jarðhitakerfi og á þeim árum sem eru liðin síðan jarðvarmamat fyrir Ísland í heild var reiknað (1985), hefur mikið bæst við af borholu- og vinnslugögnum til að styðjast við, auk almennrar jarðvísindaþekkingar og tækniframþróunar.

Við endurskoðun jarðvarmamatsins verða metin áhrif vinnslu og niðurdælingar á jarðhitasvæðum í nýtingu, forsendur eldri jarðvarmamats verða endurmetnar og mat lagt á nýjar aðferðir við rannsóknir og hvernig má beita þeim, til að meta stærð jarðhitaauðlindar landsins.

Niðurstöður jarðvarmamatsins munu liggja fyrir á næstu mánuðum.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum