Hoppa yfir valmynd
10. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Skýrsla Íslands um samning SÞ um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi tekin fyrir í Genf

Sendinefnd Íslands. Frá vinstri: Arndís Dögg Arnardóttir, innviðaráðuneytinu, Silja Stefánsdóttir, mennta- og barnamálaráðuneytinu, Ragnheiður Kolsöe, fastanefnd Íslands í Genf, Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins og formaður sendinefndarinnar, Elísabet Gísladóttir, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu, María Sæm Bjarkardóttir, heilbrigðisráðuneytinu, og Áshildur Linnet, félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu.    - mynd

Fimmta skýrsla Íslands um samninginn um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi (CESCR) var tekin fyrir á fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi í Genf 9. og 10. september.

Í skýrslunni er fjallað um hvernig Ísland hefur uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samningnum og þær aðgerðir sem gripið hefur verið til í því skyni að uppfylla tilmæli nefndarinnar um nauðsynlegar úrbætur.

Ísland fullgilti samninginn árið 1979 og tryggir hann ýmis grundvallarréttindi sem varða tækifæri og möguleika fólks til að lifa mannsæmandi lífi. Ákvæði samningsins ná yfir breitt svið réttinda á borð við réttinn til að afla sér lífsviðurværis, réttinn til að njóta líkamlegrar og andlegar heilsu og réttinn til menntunar. Áhersla er lögð á að allir einstaklingar hafi jöfn tækifæri til að njóta þeirra réttinda sem samningurinn verndar.

Í fyrirtökunni var fjallað um stöðu mannréttinda í íslensku samfélagi og aðgerðir stjórnvalda í því sambandi. Nefndin lagði sig sérstaklega eftir því að kanna hvernig íslensk stjórnvöld hafa brugðist við áskorunum í íslensku samfélagi frá síðustu fyrirtöku árið 2012. Jafnframt var horft til framtíðar varðandi ýmsa þætti sem fyrirhugað er að vinna að á sviði efnahagslegra, félagslegra og menningarlegra réttinda.

Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins, leiddi íslensku sendinefndina sem var skipuð fulltrúum félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins, heilbrigðisráðuneytisins, mennta- og barnamálaráðuneytisins, innviðaráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins.

Frá fyrirtöku Íslands nú í morgun.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta