Hoppa yfir valmynd
11. september 2024 Innviðaráðuneytið

Fjárlög 2025: Áhersla á húsnæðisuppbyggingu og umhverfisvænni samgöngur

Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra - mynd

Fjárlagafrumvarp 2025 hefur verið lagt fram á Alþingi. Framlög til verkefna á málefnasviðum innviðaráðuneytisins nema 127,9 milljörðum króna og aukast um 14% frá fjárlögum 2024. Sérstök áhersla verður lögð á húsnæðismál og umhverfisvænni samgöngumáta.  

Hlutfall innviðaráðuneytisins í fjárlögum 2025.

Aukinn kraftur í húsnæðisuppbyggingu 

Framlög til húsnæðis- og skipulagsmála nema samtals 26,9 milljörðum kr. og hafa aldrei verið hærri. Áfram verður áhersla lögð á að gera samninga við sveitarfélög um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á grundvelli rammasamnings ríkis og sveitarfélaga. Stjórnvöld munu áfram styðja við óhagnaðardrifin húsnæðisfélög með það að markmiði að auka framboð leiguíbúða fyrir tekjulægri heimili í gegnum stofnframlög, auk þess sem hlutdeildarlán styðja við fyrstu kaupendur íbúðarhúsnæðis með lægri tekjur.  

Stutt verður við byggingu allt að þúsund íbúða á næsta ári með stofnframlögum og hlutdeildarlánum, en heimildir til hlutdeildarlána hækka um einn milljarð kr. frá fjárlögum 2024. Samtals nema framlög til stofnframlaga og heimildir til hlutdeildarlána rúmum 11,3 milljörðum kr. á næsta ári. 

Framlög til húsnæðisbóta aukast um 2,5 milljarða kr. eða 28% frá fjárlögum 2024, en grunnfjárhæðir húsnæðisbóta hækkuðu um 25% þann 1. júní sl. ásamt því að bætt var sérstaklega í stuðning við stærri fjölskyldur. 

Stefnt er að fjölgun íbúða með minna vistspori.  Í því skyni verður húsnæði sem mætti endurnýta til búsetu kortlagt auk þess sem skoðað verður hvort nýta megi land og húsnæði í eigu ríkisins til að hraða uppbyggingu íbúða. 

Farið verður í verkefni er snúa að skilvirkari stjórnsýslu og gæði íbúða í jafnvægi við umhverfið. Skoðað verður hvernig auka megi réttarvernd neytenda vegna byggingargalla og fyrstu skrefin tekin í að takmarka kolefnislosun bygginga. 

Verkefnið Tryggð byggð heldur áfram en það er samstarfsvettvangur um húsnæðisuppbyggingu á landsbyggðinni. Greint verður hvar skortur á leiguhúsnæði stendur atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni fyrir þrifum. 

Áhersla á umhverfisvænar samgöngur 

Framlög til samgöngumála aukast um samtals 9 milljarða kr. eða 17%. Ber þar helst að nefna aukin framlög til uppbyggingar samgönguinnviða allra ferðamáta á höfuðborgarsvæðinu í samræmi við framkvæmdaáætlun samgöngusáttmálans.  

Meðal framkvæmda sem unnið verður að er Fossvogsbrú, framkvæmdir við Arnarnesveg, nýir hjóla- og göngustígar ásamt ýmsum aðgerðum í umferðastýringu. Umhverfisvænni almenningssamgöngur verða efldar og aðkoma ríkisins að almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu mótuð og innleidd í samræmi við samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Samtals aukast framlög til þessara verkefna um 6,2 milljarða kr. 

Aukið fé verður lagt í viðhald stofnvega í kringum höfuðborgarsvæðið og hækka framlög um 3 milljarða kr. Undirbúningur vegna Sundabrautar er vel á veg kominn þar sem unnið er að mati á umhverfisáhrifum, útfærslu valkosta, breytingum á skipulagsáætlunum auk samráðs við hagaðila. 

Fækkun einbreiðra brúa  heldur áfram en stefnt er að því að þeim fækki um samtals fimm á árinu 2025, bæði á Hringveginum og utan hans. 

Áætlunarflug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja yfir vetrartímann verður áfram styrkt. 

Áfram verður unnið að uppbyggingu hafnarmannvirkja víða um land, en meðal verkefna eru endurbætur hafna á Vopnafirði, Húsavík, í Vestmannaeyjum, á Sauðárkróki og í Njarðvík. 

Uppbygging varaflugvalla í Reykjavík, á Akureyri og Egilsstöðum heldur áfram með innheimtu varaflugvallargjalds. Samhliða verður unnið að uppbyggingu minni lendingarstaða svo þeir geti þjónað hlutverki sínu vegna sjúkra- og almannaflugs. 

Áfram stutt við eflingu landsbyggðar 

Framlög til sveitarfélaga í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga verða aukin um 3,6 milljarða kr. eða 11%. 

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er boðuð heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögum og endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs til að stuðla að markvissari og réttlátari úthlutun úr sjóðnum.  

Hafin verður vinna við heildarstefnumótun ríkis og sveitarfélaga um stafræna þjónustu í gegnum island.is í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga. 

Á grundvelli byggðaáætlunar verður áfram unnið að verkefnum er lúta að því að jafna aðgengi að þjónustu á landsbyggðinni, svo sem með því að skilgreina hvað felst í opinberri þjónustu með það að markmiði að jafna aðgengi og þjónustustig milli landshluta, til dæmis heilbrigðisþjónustu, með styrkingu reksturs dagvöruverslunar í minni byggðarlögum og auknu öryggi í afhendingu raforku á landsvísu. Verkefnið Brothættar byggðir heldur áfram en því er ætlað að sporna við fólksfækkun í smærri byggðarlögum m.a. með styrkjum til atvinnusköpunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum