Hoppa yfir valmynd
11. september 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun fyrir Látrabjarg

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, ásamt fulltrúum heimamanna, Umhverfisstofnunar og ráðuneytisins. - mynd

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur staðfest stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið Látrabjarg í Vesturbyggð.  

Látrabjarg var friðlýst sem friðland í mars árið 2021. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda sérstætt lífríki Látrabjargs og búsvæði fugla og viðhalda náttúrulegu ástandi svæðisins og landslagi. Enn fremur er markmið friðlýsingarinnar að vernda menningarminjar og menningararf svæðisins en um menningarminjar fer samkvæmt ákvæðum minjalaga nr. 80/2012. Friðlandið er um 37 km2 að stærð og er bæði um verndarsvæði á landi og í hafi að ræða.

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Látrabjarg er stærsta fuglabjarg Evrópu og þar er mesta sjófuglabyggð Íslands. Lífríkið í bjarginu er fjölbreytt en jafnframt viðkvæmt og í gegnum aldirnar hefur samspil manns og náttúru við nýtingu auðlinda á svæðinu verið náið og mikilvægt þeim sem hér hafa búið. Þessi stjórnunar- og verndaráætlun sem unnin er af heimafólki ásamt Umhverfisstofnun setur ramma utan um náttúruvernd og nýtingu á svæðinu og það er virkilegt gleðiefni að geta staðfest áætlunina hér á bjarginu sjálfu.“ 

Í stjórnunar- og verndaráætluninni er lögð fram stefnumótum til framtíðar, ásamt aðgerðaáætlun til eins árs. Stjórnunar- og verndaráætlunin var unnin í samstarfi Umhverfisstofnunar, landeigenda og fulltrúa Vesturbyggðar.

Friðland er einn flokkur friðlýstra svæða og þar er markmiðið að vernda tilteknar vistgerðir og búsvæði og styrkja verndun tegunda lífvera sem eru sjaldgæfar eða í hættu samkvæmt útgefnum válistum eða til að vernda lífríki sem er sérstaklega fjölbreytt eða sérstætt. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum