Hoppa yfir valmynd
12. september 2024 Matvælaráðuneytið

Aukin áhersla lögð á dýravelferð í skipulagi matvælaráðuneytis

Í samræmi við áherslur matvælaráðherra, Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur, verður aukin áhersla lögð á dýravelferð á málefnasviði matvælaráðuneytisins.

Því fylgjandi verður gerð breyting á skipulagi ráðuneytisins og mun fyrrum skrifstofa sjálfbærni framvegis heita skrifstofa sjálfbærni og dýravelferðar. Skrifstofan mun sinna stefnumótun og úrskurðum á sviði dýravelferðar auk þess að vinna að eflingu sjálfbærni í starfi og stefnumótun málaflokka ráðuneytisins ásamt samþættingu matvælaframleiðslu og umhverfismála líkt og verið hefur.

Á vegum skrifstofunnar og ráðuneytisins er framundan stefnumótunarvinna þar sem horft er til „One health“ eða einnar heilsu stefnu sem er sameiginleg Alþjóða heilbrigðisstofnuninni (WHO), Alþjóðadýraheilbrigðisstofnuninni (WOAH) Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) og Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP).  Í stefnunni er lögð áhersla á að heilsa manna verði ekki skilin frá heilsu dýra og umhverfis. Stefnan er alþjóðleg og ætlað að auka þverfaglegt samstarf og samskipti á öllum sviðum heilbrigðisþjónustu fyrir menn, dýr og umhverfi.

Í framhaldinu verður stefnumótunarvinnan kynnt fyrir ríkisstjórn og í kjölfarið lögð fram tillaga til þingsályktunar. Jafnframt er gert ráð fyrir að stöðumat við stefnumótun verði kynnt á komandi Matvælaþingi í Hörpu, 5. nóvember nk.

„Það er frumskylda okkar í dýrahaldi að tryggja heilsu og velferð dýra og tryggja að þau búi við sem bestar aðstæður“ segir matvælaráðherra. „Ég hef áður látið þau orð falla að velferð dýra er ófrávíkjanleg krafa í siðmenntuðu samfélagi, hvort sem um ræðir gæludýr eða búfénað. Og í mínum huga á þetta einnig við um villt dýr. Stofnun þessarar skrifstofu og sú áherslubreyting sem henni fylgir er liður í því að gera þessum mikilvæga málaflokki hærra undir höfði“

.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum