Um bakaðgerðir og yfirstandandi vinnu heilbrigðisyfirvalda til að fjölga þeim
Vegna umræðu í fjölmiðlum um hryggjaraðgerðir (bakaðgerðir) vill heilbrigðisráðuneytið gera grein fyrir þeirri vinnu sem nú stendur yfir til að fjölga slíkum aðgerðum með greiðsluþátttöku hins opinbera. Sjúkratryggingar Íslands vinna nú að því að semja við sjálfstætt starfandi sérgreinalækna um framkvæmd bakaðgerða, í samræmi við ákvörðun og fyrirmæli ráðuneytisins. Ekki hafa áður verið gerðir samningar um hryggjaraðgerðir en við samningsgerðina er horft til fenginnar reynslu af samningum um liðskiptaaðgerðir sem gefið hafa góða raun.
Hryggjaraðgerðir hafa fram að þessu eingöngu verið framkvæmdar á Landspítala og í einhverjum mæli á Sjúkrahúsinu á Akureyri. Undanfarin ár hefur Landspítali ekki annað þörfinni. Of fáar aðgerðir hafa verið gerðar vegna skorts á skurðstofuplássi og biðlistar hafa lengst. Landspítali hefur óskað eftir því að hluti þessara aðgerða verði fluttur frá spítalanum. Þetta verður gert í skrefum og hafa ráðuneytið og Sjúkratryggingar Íslands unnið að undirbúningi þessa verkefnis um nokkurra mánaða skeið.
Markmiðið að fjölga aðgerðum og tryggja opinbera greiðsluþátttöku
Þar sem hér á landi hefur aldrei áður verið samið við einkaaðila um framkvæmd hryggjaraðgerða er undirbúningurinn og samningsgerðin meira krefjandi en ella. Á síðasta ári voru gerðir samningar við einkaaðila um framkvæmd 700 liðskiptaaðgerða til viðbótar við þær aðgerðir sem gerðar eru innan opinberra heilbrigðisstofnana. Í megindráttum hefur framkvæmd þessara samninga gengið vel og biðlistar hafa styst til muna. Áhersla er lögð á að nýta lærdóminn sem fengist hefur af þessum samningum og framkvæmd þeirra til að gera fyrirhugaða samninga um hryggjaraðgerðir sem best úr garði.
Tryggja þarf faglegar kröfur, skilvirkni og gegnsæi
Í samningsgerðinni er rík áhersla lögð á að tryggja faglegar kröfur varðandi aðgerðirnar með áherslu á öryggi sjúklinga, samhliða skilvirkni þjónustunnar. Vandað verði til mats á sjúklingum, vals á skurðaðgerð sem meðferðarúrræði og undirbúningi fyrir aðgerð. Mikilvægt er að ekki skapist tvöfalt kerfi við veitingu þessarar þjónustu, heldur að sjúklingar sitji við sama borð óháð efnahag. Forgangsröðun í aðgerðirnar byggist á faglegu, einstaklingsbundnu mati á þörf og að reglur um greiðsluþátttöku hins opinbera í aðgerðunum séu skýrar og öllum ljósar.
Frétt uppfærð 13. september