Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Fjárlög 2025: Verðmætasköpun á skilvirkum og ábyrgum grunni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra - mynd

Styrkum stoðum er rennt undir þekkingarsamfélag framtíðar í fjárlagafrumvarpi ársins 2025. Háskólar landsins eru efldir með nýrri árangurstengdri fjármögnun um leið og aðgangshindrunum er rutt úr vegi, sem hefur þegar skilað sér í fjölgun nemenda, auk þess sem fjárfesting í stuðningsumhverfi nýsköpunar er fest í sessi. Í fjárlagafrumvarpinu er einnig að finna fjölda aðgerða á forræði háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins sem munu stuðla að hagnýtingu hugvits við lausn á brýnum samfélagslegum áskorunum; eins og gervigreind, netöryggi og fjarskiptatengingu um land allt. Þannig verður stuðlað að aukinni verðmætasköpun til framtíðar, meðfram þeim aðhaldskröfum sem nú þarf að mæta.

„Frá stofnun ráðuneytisins höfum við lagt áherslu á að hugsa til framtíðar. Ekki aðeins með því að efla hugvitsgreinar í íslensku samfélagi heldur jafnframt með að verja skattpeningum almennings með hagkvæmari, skilvirkari og árangursríkari hætti en áður. Ráðuneyti mitt hefur þegar sýnt fram á umtalsverðan efnahagslegan ávinning af vinnu sinni og á því er engin breyting í fjárlagafrumvarpi næsta árs,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sem kynnti hlut ráðuneytis hennar í fjárlögunum á Alþingi nú síðdegis

Fleiri nemendur í betri háskólum

Meðal helstu tíðinda í frumvarpinu er tilkoma nýrrar árangurstengdrar fjármögnunar háskólanna. Um er að ræða einhverja viðamestu breytingu á háskólastiginu í áratugi sem fræðast má betur um hér. Samhliða breytingunni er fjármögnun háskólanna aukin um 1.400 milljónir til að efla starfsemi og auka samkeppnishæfni háskóla í alþjóðlegum samanburði, í samræmi við árangur þeirra við kennslu, rannsóknir og aðra starfsemi í þágu samfélagsins.

Árangurstengda fjármögnunin var jafnframt forsenda þess að Listaháskóli Íslands og Háskólinn á Bifröst gátu fellt niður skólagjöld sem leitt hefur til mikillar fjölgunar nemenda í skólunum tveimur. Þar að auki hefur nemendum í STEM-greinum og heilbrigðisvísindum nú fjölgað í takti við aukna áherslu ráðuneytisins á umræddar brautir, og mun fyrrnefnd fjárveiting búa þeim gott námsumhverfi.

Í fjárlagafrumvarpinu er einnig boðuð uppbygging háskólahúsnæðis sem mun bæta innviði og umgjörð til rannsókna og náms. Má þar nefna Hús heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands hjá Nýja Landspítalanum, jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands og húsnæði fyrir fiskeldisrannsóknir og nám í hestafræðum við Háskólann á Hólum. Samhliða þessu er samstarf háskólanna aukið með það fyrir augum að nýta betur innviði þeirra og stoðþjónustu, stuðla að uppbyggingu sameiginlegra rannsóknarinnviða, auka sveigjanleika í námi og efla alþjóðasamstarf.

Hugvitið eflt með öflugum sjóðum

Samkeppnissjóðir hafa leikið lykilhlutverk í uppbyggingu tækni- og hugverkaiðnaðar á Íslandi á undanförnum árum. Þannig hafa útflutningstekjur geirans fimmfaldast á síðustu 15 árum og núvirtar skattgreiðslur hugverkaiðnaðarins aukist um 30% frá árinu 2017. Í fjárlögum ársins 2025 má finna stuðning við samkeppnissjóði hins opinbera til að viðhalda áframhaldandi vexti hugvitsgreina, meðfram einföldun sjóðaumhverfisins og regluverks til að hámarka nýtingu fjármuna.

Þá er stuðningur við þátttöku innlendra aðila í Samstarfsáætlun Evrópusambandsins um menntun, rannsóknir og tækniþróun aukinn um rúmar 950 milljónir króna. Er þar um að ræða stuðning við verkefni á borð við Horizon Europe, Erasmus+, Digital Europe, InvestEU og fleiri sem stutt hafa fjölda íslenskra fyrirtækja á undanförnum árum. Kostnaðarhlutdeild Íslands eykst vegna hærri hagvaxtar hér en víða annars staðar í Evrópu.

Aftur á móti lækka framlög til annarra styrktar- og samkeppnissjóða hins opinbera um tæpar 535 milljónir. Munar þar mestu um framlög til Tækniþróunarsjóðs og Rannsóknarsjóðs en lækkun til þess síðarnefnda er þó hlutfallslega minnsta lækkunin til sjóða á málefnasviðinu.

Þá tekur Nýsköpunarsjóðurinn Kría til starfa en sjóðurinn varð til við samruna Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins og Kríu, sprota- og nýsköpunarsjóðs. Sameiningin markaði upphaf vinnu háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins við að fækka sjóðum á sínum vegum,  eins og boðað var í upphafi árs. Fjarskiptasjóður verður að sama skapi lagður niður um áramót. Samkvæmt greiningu HVIN væri hægt að spara ríkinu um 500 milljónir króna árlega með því að fækka sjóðum og koma á laggirnar einni umsóknargátt, sem ráðuneytið mun áfram vinna að á komandi mánuðum í samstarfi við önnur ráðuneyti.

Í fjárlögum ársins 2025 er einnig að finna stuðning við verkefni sem stuðla að aukinni skilvirkni í opinberum rekstri, eins og framkvæmd aðgerðaráætlunar og mótun heildstæðrar löggjafar á sviði gervigreindar. Þá nýtur einföldun regluverks sem gera mun erlendum sérfræðingum auðveldara með að setjast að hér á landi jafnframt stuðnings í fjárlögunum.

Bætt fjarskipti og aukið netöryggi

Áreiðanlegt háhraðanets- og farnetssamband um landið er meðal forgangsmála háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytisins á komandi ári. Þá er að finna stuðning við eflingu netöryggis á Íslandi í fjárlögum ársins 2025.

Meðal aðgerða sem stutt verður við á komandi ári er bætt aðgengi að samfelldu talsambandi og farneti á öllum stofnvegum á láglendi. Að sama skapi verður ljósleiðaravæðingu alls þéttbýlis utan markaðssvæða fylgt úr hlaði en stefnt er að því að henni verði lokið fyrir árslok 2026.

Þá verður Ísland jafnframt þátttakandi í áætlun um öryggisfjarskiptakerfi um gervihnetti, hvers markmið er að tryggja til frambúðar aðgengi að hraðvirkum, öruggum og hagkvæmum fjarskiptum um gervihnetti á heimsvísu.Þar að auki verður unnið að framkvæmd og eftirfylgni með rúmlega 60 aðgerðum sem getið er um í aðgerðaráætlun stjórnvalda á þessu sviði, sem og að endurnýja tilskipun ESB um netöryggi mikilvægra innviða.

Allar frekari upplýsingar um fjárlagafrumvarpið 2025 má finna á vef Stjórnarráðsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum