Hoppa yfir valmynd
13. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Varautanríkisráðherra Bandaríkjanna á Íslandi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra ásamt Kurt M. Campbell varautanríkisráðherra Bandaríkjanna. - myndU.S. Embassy

Aukið samstarf Bandaríkjanna og Íslands, m.a. á sviðum tækni og nýsköpunar, og tvíhliða samskipti þjóðanna voru á meðal umræðuefna á fundi Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og Kurt M. Campbell, varautanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem fram fór í utanríkisráðuneytinu í morgun. 

Þá voru átökin fyrir botni Miðjarðarhafs, málefni Úkraínu og staða mála á Indó- Kyrrahafssvæðinu sömuleiðis til umræðu á fundinum.  

„Bandaríkin eru ein af okkar helstu vinaþjóðum og því er alltaf ánægjulegt að taka á móti fulltrúum þeirra hér á Íslandi,“ segir Þórdís Kolbrún. „Koma bandaríska varautanríkisráðherrans til landsins endurspeglar það nána samstarf sem við eigum við Bandaríkin á nær öllum sviðum utanríkis- og varnarmála. Bandaríkin hafa lengi verið stærsta viðskiptaland Íslands, samstarf okkar á sviði varnarmála byggir á traustum grunni enda deilum við sameiginlegum varnarhagsmunum á Norður-Atlantshafi og erum náin bandalagsríki í Atlantshafsbandalaginu.“   

Kurt M. Campbell tók við sem varautanríkisráðherra Bandaríkjanna í febrúar síðastliðnum og er næstráðandi í ráðuneytinu, staðgengill Antony Blinken utanríkisráðherra. 

„Ég vil byrja á því að undirstrika að það er ekki hægt að biðja um betri samstarfsþjóð en Ísland. Við Þórdís Kolbrún utanríkisráðherra áttum mjög góðar og gagnlegar viðræður, fyrst í Washington D.C. í apríl, og svo aftur hér í Reykjavík í dag um málefni sem snerta okkur öll,” segir Campbell. „Á meðal þess sem bar á góma voru tæknimál, varnar- og umhverfismál, sjálfbær þróun og fiskveiðar. Í raun og veru var allt sem skiptir máli fyrir þjóðir okkar til umræðu.” 

Í stuttri heimsókn sinni til landsins sótti Campbell auk þess fund utanríkismálanefndar Alþingis og heimsótti öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli til að kynna sér aðstæður. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum