Hoppa yfir valmynd
15. september 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Starfshópur um bætt öryggi í ferðaþjónustu

Menningar- og viðskiptaráðherra hefur óskað eftir tilnefningum í starfshóp um öryggismál í ferðaþjónustu. Er það liður í eftirfylgni með aðgerðaáætlun (E.7 ) með ferðamálastefnu til 2030 sem samþykkt var í júní 2024 og unnin var í breiðri samvinnu fjölda hagaðila. Starfshópurinn hefur það að meginhlutverki að koma með tillögur að úrbótum á sviði öryggismála í ferðaþjónustu, tryggja samráð á milli hlutaðeigandi ráðuneyta, stofnana og atvinnugreinarinnar, og stuðla að framgangi verkefna sem hafa það að markmiði að bæta öryggi ferðamanna þvert á hið opinbera og atvinnulíf.

„Það er markmið stjórnvalda og ferðaþjónustunnar að fækka slysum og tryggja enn betur öryggi gesta okkar – allt árið um kring. Sú áhersla kom skýrt fram í aðgerðaáætlun ferðamálastefnunnar og nú er sú vinna að hefjast. Ég legg áherslu á að í þeirri vinnu verði meðal annars náð utan um skilgreiningu og skráningu slysa og óhappa í greininni, segir,“ Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra.

Starfshópnum er meðal annars falið að skoða með heildstæðum hætti regluverk er snýr að öryggi ferðamanna og eftirliti með því, upplýsingagjöf til ferðamanna, skráningu slysa og óhappa, áhættumat á áfangastöðum og fyrir tilteknar tegundir afþreyingar, fjarskiptasamband um landið og viðbragðstíma viðbragðsaðila.

Þá skal starfshópurinn taka til skoðunar útgáfu reglugerðar þar sem nánar verði kveðið á um form og innihald öryggisáætlana og um framkvæmd við yfirferð og eftirfylgni með öryggisáætlunum. Í því samhengi skal hópurinn einnig huga að uppfærslu á leiðbeinandi reglum Ferðamálastofu um öryggismál ferðaskipuleggjenda og ferðaskrifstofa.

Kröfur og leyfisveitingar til ferðaþjónustuaðila sem starfa innan þjóðgarða skulu einnig teknar til skoðunar af starfshópnum, út frá öryggi ferðamanna í skipulögðum ferðum, sem og eftirlit með þeim rekstraraðilum.

Starfshópinn skipa fulltrúar Ferðamálastofu, menningar- og viðskiptaráðuneytis, dómsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis, innviðaráðuneytis, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis og Samtaka ferðaþjónustunnar. Miðað er við að starfshópurinn hafi víðtækt samráð í starfi sínu, meðal annars við aðrar stofnanir, sveitarfélög, fagfélög, menntastofnanir og ferðaþjónustufyrirtæki.

Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum til ráðherra í áföngum og að fyrstu skil verði 1. desember 2024.

E.7. Bætt öryggi ferðamanna – úr aðgerðaráætlun, Ferðamálastefnu til 2030

  • Markmið: Að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt.
  • Stutt lýsing: Stofnaður verði starfshópur til þess að greina öryggismál í ferðaþjónustu, vinna að framgangi þeirra og tryggja samtal á milli aðila. Starfshópurinn skoði m.a. upplýsingagjöf, hvernig skráningu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfangastöðum, uppfærslu viðbragðsáætlunar, fjarskiptasamband, viðbragðstíma viðbragðsaðila og samræmda og skýra til ferðamanna.
  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Almannavarnir, áfangastaðastofur, heilbrigðisráðuneyti, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Fjarskiptastofa, Íslandsstofa, Lögreglan, sveitarfélög, dómsmálaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vegagerðin, Veðurstofan, innviðaráðuneyti.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, Fjarskiptaáætlun og aðgerðaáætlun um sjúkraflutninga og bráðaþjónustu til ársins 2025.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður við markmið 3 og 9, einkum undirmarkmið 3.6 og 9.1.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr. árlega í ýmsar aðgerðir og verkefni til að tryggja öryggi ferðamanna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum