Hoppa yfir valmynd
19. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið, Innviðaráðuneytið

Ljósleiðaravæðing landsins undirrituð

Ljósleiðaravæðing landsins undirrituð - myndLjósmynd: Sigurjón Sigurjónsson

Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og innviðaráðherra staðfestu í dag samninga fjarskiptasjóðs við 25 sveitarfélög um að ljúka ljósleiðaravæðingu landsins fyrir árslok 2026. Lengi hefur ríkt óvissa um hvort, og þá hvenær, mörg þúsund lögheimili í þéttbýli um land allt munu eiga kost á háhraðanetsambandi, sem er mikilvægt öryggismál og undirstaða nútíma búsetugæða. Með þessum samningum er sú óvissa ekki lengur fyrir hendi.

„Undirritunin í dag markar mikil tímamót enda munu samningarnir stuðla að ljósleiðaravæðingu sem er fordæmalaus á heimsvísu. Þrátt fyrir að Íslendingar hafi náð eftirtektarverðum árangri í þessum efnum á undanförnum árum mun þessi lokahnykkur styrkja byggðir landsins, fjölga atvinnutækifærum og stuðla að auknu fjarskiptaöryggi um land allt svo um munar. Allt stuðlar þetta að aukinni samkeppnishæfni Íslands og eykur frelsi fólks til að búa og starfa þar sem það sjálft kýs,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.

„Háhraða fjarskipti eru forsenda fyrir Íslendinga til þess að sinna störfum sínum, námi og hafa aðgang að þjónustu. Ljósleiðaravæðing á landsbyggðinni er eitt umfangsmesta byggðaverkefni síðari ára. Gott samstarf hefur verið milli ríkis og sveitarfélaga í þessu mikilvæga verkefni, að tengja landið allt ljósleiðurum. Samstarf um betri framtíð og öflugri innviði sem styrkja byggðir landsins, segir Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra.

Þátttaka umfram væntingar

Greint var frá því í sumar að háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hafi, í samstarfi við innviðaráðherra, ákveðið að flýta fyrirhugaðri ljósleiðaravæðingu landsins um tvö ár. Opinbert markmið stjórnvalda um aðgengi að ljósleiðara hafði fram að því verið að allir þéttbýlisstaðir og byggðakjarnar á landinu næðu a.m.k. 80% hlutfalli tengdra lögheimila fyrir árslok 2028. Nýju áformunum sem kynnt voru 2. júlí sl. var aftur á móti ætlað að stuðla að 100% aðgengi fyrir árslok 2026, á grundvelli samvinnu íbúa, sveitarfélaga, fjarskiptafyrirtækja og ríkisins.

Fjarskiptastofa kannaði í vor áform fjarskiptafyrirtækja og opinberra aðila um uppbyggingu á ljósleiðara í öllu þéttbýli árin 2024 til 2026. Könnunin leiddi í ljós að slík áform náðu ekki til 4.438 heimilisfanga í 48 sveitarfélögum. Fjarskiptasjóður gerði sveitarfélögunum því tilboð um 80.000 kr. styrk til að kosta jarðvinnu við að tengja hvert slíkt heimilisfang fyrir árslok 2026. Samþykkt tilboð ná til 4.251 heimilisfangs sem jafngildir um 96% þátttöku sem er umfram væntingar.

Ýmsar ástæður geta verið fyrir því að uppbyggingin, sem er á ábyrgð sveitarfélaga og fjarskiptafyrirtækja, nái ekki til 100% lögheimila; svo sem að fjöldi ótengdra heimilisfanga sé óverulegur (t.d. á höfuðborgarsvæðinu), enginn búi á viðkomandi heimilisfangi, íbúar hafni tengingu þar sem þau hafi aðgang að ljósneti og/eða 5G o.s.frv. Það útilokar þó ekki að slík heimili geti tengst ljósleiðara síðar.

Skuldbinding ríkisins er um 340 milljónir króna gangi öll uppbyggingin eftir. Fjarskiptasjóður er ábyrgðar- og framkvæmdaraðili verkefnisins fyrir hönd ríkisins og greiðandi styrksins, en til stendur að leggja niður sjóðinn um áramót enda hefur hann uppfyllt hlutverk sitt. Verkefnið er einnig fjármagnað með framlagi af byggðaáætlun, líkt og verið hefur síðan árið 2017.

Sveitarfélögin 25

Fulltrúar 17 sveitarfélaga af þeim 25 sem taka þátt í verkefninu voru viðstödd undirritunina í dag, sem fram fór í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu. Sveitarfélögin 25 eru: Akureyrarbær, Bláskógabyggð, Bolungarvíkurkaupstaður, Borgarbyggð, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Fjarðabyggð, Grímsnes- og Grafningshreppur, Grundarfjarðarbær, Húnabyggð, Húnaþing vestra, Ísafjarðarbær, Langanesbyggð, Mosfellsbær, Múlaþing, Norðurþing, Reykhólahreppur, Snæfellsbær, Strandabyggð, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Hornafjörður, Sveitarfélagið Skagafjörður, Sveitarfélagið Stykkishólmur og Vesturbyggð.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum