Hoppa yfir valmynd
20. september 2024 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 20. september 2024

Heil og sæl.

Hér kemur föstudagspóstur vikunnar.

Nýsköpun í þróunarsamvinnu, stuðningur við enduruppbyggingu Úkraínu, græn orkuskipti í þróunarríkjum og lýðræðisþróun í Austur-Evrópu voru meðal viðfangsefna á fundi þróunarsamvinnuráðherra Norðurlandanna sem fram fór í Stokkhólmi í vikunni. Benjamin Dousa, nýskipaður þróunarsamvinnuráðherra Svíþjóðar, tók þar á móti Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra og öðrum norrænum starfssystkinum sínum en fundurinn er liður í formennsku Svíþjóðar í norrænu samstarfi.

  

Utanríkisráðherra ræddi líka við sendinefnd frá Inuit Development Cooperation Association í vikunni. Sendiráð Íslands í Kanada skipulagði för hópsins en tilgangur ferðarinnar var að kanna mögulegt samstarf milli Íslands og heimskautasvæða Kanada, meðal annars á sviði viðskipta.

  

  

Norðurlöndin tilkynntu í dag um undirritun tillagna að frekari útfærslu varnarsamstarfs ríkjanna (Nordic Defence Concept), sem markar mikilvægan áfanga í norrænni varnarsamvinnu sem heild. Jónas G. Allansson, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu ráðuneytisins, undirritaði tillögurnar fyrir Íslands hönd.

 

Ráðuneytið viðraði áhyggjur vegna nýsamþykktrar löggjafar í Georgíu.

Þá sagði ráðuneytið frá störfum Brynju Daggar Friðriksdóttur, útsends borgaralegs sérfræðings hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi. Brynja tók þátt í skemmtilegu verkefni á dögunum þegar hópur frá fjölþjóðaliðinu færði fjórum skólum í Latgale-héraði bækur og borðspil að gjöf.

 

Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Indónesíu, undirritaði á miðvikudag viljayfirlýsingu um samstarf Íslands og Indónesíu í jarðhitamálum á árlegu jarðhitaþingi (IIGCE) sem fram fór í Jakarta, höfuðborg Indónesíu. Samstarfið lýtur að endurnýjanlegri orku, með áherslu á þróun jarðhita, en umhverfis-, orku og loftslagsráðuneytið ber ábyrgð á framkvæmd samstarfsins fyrir hönd Íslands. Jarðhitaþingið var sótt af fulltrúum átta íslenskra fyrirtækja og átti sendinefndin fundi með indónesískum fyrirtækjum, en þátttaka þeirra var skipulögð í samstarfi við Íslandsstofu og sendiráð Íslands í Tókýó.

  

Samhliða jarðhitaráðstefnunni fundaði Stefán Haukur einnig með Pahala Mansyurc, varautanríkisráðherra Indónesíu, og Bala Kumar Palaniappan, skrifstofustjóra ytri samskipta hjá ASEAN. Sendiráð Íslands í Tókýó er með fyrirsvar gagnvart ASEAN ríkjasamtökunum. Aðildarríkin er tíu lönd Suðaustur-Asíu með íbúafjölda upp á rúmlega 660 milljón manns.

Pétur Ásgeirsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, afhenti Friðriki 10. Danakonungi trúnaðarbréf sitt í Amalíuborg í vikunni. Jóhanna Gunnarsdóttir, eiginkona Péturs, var einnig viðstödd afhendinguna og er hér á myndinni með honum og Danakonungi.

 

Þá bauð Pétur í síðustu viku til móttöku í tilefni af TechBBQ-ráðstefnunni sem fór fram dagana 11. og 12. september. Móttakan var haldin í samvinnu við Íslandsstofu en yfir 40 íslensk fyrirtæki og fimm sjóðir mættu í móttökuna ásamt fjölda norrænna fjárfesta og annarra aðila úr viðskiptalífinu.

 

Svanhildur Hólm Valsdóttir, sendiherra Íslands í Washington D.C., afhenti Joseph R. Biden Bandaríkjaforseta trúnaðarbréf sitt á miðvikudag. Afhendingin fór fram við hátíðlega athöfn á skrifstofu forsetans í Hvíta húsinu þar sem sendiherra bar forsetanum kveðju forseta Íslands og ríkisstjórnar. Í stuttu samtali ræddu þau þétt og langvarandi samstarf Íslands og Bandaríkjanna, en í ár eru 80 ár liðin frá stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna.

  

Davíð Bjarnason, forstöðumaður sendiráðs Íslands í Lilongwe, afhenti Nancy Tembo, utanríkisráðherra Malaví, trúnaðarbréf sitt í vikunni og ræddi af því tilefni gott og farsælt samstarf Íslands og Malaví.

  

68. ársþing Alþjóðakjarnorkumálastofnunarinnar (IAEA General Conference) fór fram í Vín í vikunni. Sendinefnd Íslands á ársþinginu var skipuð fulltrúum frá utanríkisráðuneytinu, fastanefnd Íslands gagnvart Alþjóðakjarnorkumálastofnuninni (það er fastanefndinni í Vín) og Geislavörnum ríkisins.

  

Harald Aspelund, sendiherra Íslands í Helsinki, og Ásthildur Jónsdóttir, eiginkona hans, tóku á móti Orkusenatinu, það er sérfræðingum úr íslenska orkugeiranum sem komnir eru á eftirlaun, á heimili sínu í vikunni.

 

Þá tók Harald þátt í sameiginlegum fundi í Lettlandi þar sem Barnahússverkefnið, sem fer fram á grundvelli tvíhliða samstarfs innan Uppbyggingarsjóðs EES, var meðal annars til umræðu.

  

  

Harald skipaði í vikunni Mathias Grunér kjörræðismann Íslands í Álandseyjum í móttöku í Maríuhöfn. Grunér tekur við af Nils-Erik Eklund sem starfaði í þjónustu við Íslendinga í 31 ár en hefur nú látið af störfum.

  

Haldið var upp á alþjóðlega jafnlaunadaginn í vikunni. Ráðuneytið vakti athygli á því á X þar sem fram kom að Ísland muni áfram taka hlutverk sitt sem leiðtogi á sviði jafnréttismála alvarlega.

Þá nýtti sendiráðið í París, sem fer með fyrirsvar gagnvart Efnahags- og framfarastofnuninni, OECD, tækifærið og sagði betur frá vel heppnuðum jafnlaunadagsviðburði sínum sem fram fór í síðustu viku og fjallað var um í síðasta Föstudagspósti.

  

Sendiráðið í Varsjá vakti sömuleiðis athygli á alþjóðlega jafnlaunadeginum á Facebook-síðu sinni.

Sendiráðið í Osló tilkynnti um opnun nýs reiknings á Instagram þar sem fylgjast má með starfsemi þess.

Á döfinni er síðan Oslo Innovation Week en sex nýsköpunarfyrirtæki taka þátt frá Íslandi í ár og fyrirhugað að viðburður vegna dagskrárinnar fari fram í sendiherrabústaðnum 26. september.

 

Íslenskir bæjarstjórar heimsóttu Færeyjar ásamt Gísla Gíslasyni fararstjóra. Litu þeir meðal annars við hjá aðalræðisskrifstofu Íslands og heimsóttu auk þess borgarstjóra Þórshafnar.

  

Fulltrúar ráðuneytisins og sendiráðsins í Freetown ferðuðust til Kambia-héraðs í Síerra Leóne til að kynna sér verkefni sem snýr að sólarorku.

Af vettvangi íslensku fastanefndarinnar gagnvart Atlantshafsbandalaginu í Brussel var það í fréttum að fastafulltrúi okkar, Jörundur Valtýsson, hitti og ræddi við Jens Stoltenberg, fráfarandi framkvæmdastjóra bandalagsins, og bauð Íslendingum sem starfa í tengslum við og á vettvangi bandalagsins í vöfflukaffi.

Fyrsti fundur EFTA-ráðsins í kjölfar breytinga á skipan í framkvæmdastjórn EFTA fór fram í Genf í vikunni. Noregur fer með formennskuna að þessu sinni.

Sendiráðið í Kampala vakti athygli á samstarfsverkefni World Food Programme sem Ísland tekur þátt í og snýr að skólamáltíðum barna.

Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, hitti Long Xiaohong, skrifstofustjóra viðskiptaskrifstofu í Hubei-héraði í tengslum við China Nordic Forum í Wuhan.

Sendiráðið í Berlín fékk góða gesti í heimsókn í vikunni en það var útskriftarárgangur 1964 úr Menntaskólanum í Reykjavík. Þau fengu leiðsögn um sendiráðssvæðið og Auðunn Atlason sendiherra sagði frá helstu verkefnum yfir kaffibolla og kökusneið.

  

Þá er dagurinn í dag síðasti vinnudagur Erlu Helgadóttur, sendiráðsfulltrúa í sendiráðinu í Berlín, en hún er á leið heim til starfa í ráðuneytinu.

Fleira var það ekki þessa vikuna og óskum við ykkur góðrar helgar.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum