Forsætisráðherra á leiðtogafundi um framtíðina
Aðildarríki Sameinuðu þjóðanna samþykktu sáttmála um framtíðina í gær á leiðtogafundi í New York. Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og ákall um aukið traust í alþjóðlegri samvinnu eru meginatriði sáttmálans.
Í ávarpi sínu á leiðtogafundinum lagði Bjarni Benediktsson forsætisráðherra sérstaka áherslu á heilbrigði hafsins og virðingu fyrir landamærum ríkja. Hann fagnaði samþykkt sáttmálans, sem samstaða náðist loks um eftir krefjandi samningaviðræður, þótt lengra hefði mátt ganga.
„Með þeim 56 aðgerðum sem nú koma til framkvæmda hafa aðildarríki Sameinuðu þjóðanna blásið nýju lífi í skuldbindingar sínar gagnvart heimsmarkmiðunum,“ sagði forsætisráðherra í ávarpi sínu og lagði m.a. áherslu á kafla sáttmálans um jafnan rétt kynjanna og réttindi hinsegin fólks. Þá fagnaði forsætisráðherra því sérstaklega að samstaða hefði náðst um vernd hafsins og sagði heilbrigð höf vera lykilforsendu fyrir heilbrigðri jörð.
Í ávarpinu vék forsætisráðherra einnig að yfirstandandi stríðsátökum. Ef þjóðir heims vildu endurheimta traust sín á milli væri ekki nóg að ítreka skuldbindingar gagnvart tilteknum sáttmálum, á sama tíma og sum aðildarríki Sameinuðu þjóðanna réðust með ólögmætum hætti á önnur. Skuldbindingarnar bæri að virða.
Fundað með aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og handhöfum friðarverðlauna Nóbels
Forsætisráðherra ávarpaði sömuleiðis málstofu þjóðarleiðtoga um fjölþjóðasamstarf í þágu friðar og öryggis. Meðal þátttakenda voru handhafar friðarverðlauna Nóbels; Ellen Johnson Sirleaf, fyrrum forseti Líberíu, og Juan Manuel Santos, fyrrum forseti Kólumbíu.
Sagði forsætisráðherra meginvanda heimsbyggðarinnar felast í tilfinnanlegum skorti á trausti. Brýnt væri að skilgreina rætur stríðsátaka, draga úr spennu milli deiluaðila og nýta styrk Sameinuðu þjóðanna við að bera klæði á vopnin. Grundvallarforsenda væri hins vegar að öll ríki, líka hin stærri og voldugri, virtu alþjóðlegar skuldbindingar sínar.
Loks fundaði forsætisráðherra með Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, sem þakkaði Íslandi fyrir ríkt framlag til stofnunarinnar og fyrir stuðninginn við sáttmálann um framtíðina. Stríðsátökin í Úkraínu, fyrir botni Miðjarðarhafs og í Súdan voru sömuleiðis til umræðu – þar sem forsætisráðherra lagði, líkt og áður, áherslu á virðingu fyrir landamærum, alþjóðalögum og vinnu í þágu friðar.
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra verða bæði viðstödd opnun ráðherraviku allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna á morgun.