Hoppa yfir valmynd
24. september 2024 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Þátttaka Íslands í InvestEU þegar farin að skila árangri

Marjut Falkstedt, forstjóri Evrópska fjárfestingasjóðsins, Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ráðherra nýsköpunarmála, og Clara Ganslandt, sendiherra Evrópusambandsins á Íslandi, við undirritun ábyrgðarsamningsins. - mynd

Evrópski fjárfestingasjóðinn (EIF) hefur samið við Arion banka um lánaábyrgðir fyrir allt að 15 milljarða króna í ný lán til smárra og meðalstórra fyrirtækja. Samningur þessa efnis var undirritaður af Marjut Falkstedt, forstjóra EIF, Benedikt Gíslasyni, bankastjóra Arion banka, Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Clara Ganslandt, sendiherra ESB á Íslandi fyrr í dag.

Ábyrgðarsamningurinn hefur það að markmiði að styðja við frumkvöðla hér á landi. Ábyrgð frá EIF, sem studd er af InvestEU áætlun Evrópusambandsins, gerir Arion banka kleift að lána allt að 15 milljarða króna til íslenskra fyrirtækja á hagstæðari kjörum en ella. Þátttaka Íslands í InvestEU gefur fyrirheit um stórauknar fjárfestingar í nýsköpun, stafrænni væðingu og grænum lausnum hér á landi, en áætlunin felur í sér aðgang að 26 milljarða evra ábyrgðarsjóði á vegum ESB. Sérstök áhersla er lögð á stuðning við nýsköpunarfyrirtæki og nýja tækni, sjálfbæra uppbyggingu innviða og verkefni í þágu loftslagsmála.

„Við sjáum að þátttaka Íslands í InvestEU er farin að skila árangri. Samstarfið við EIF undir merkjum InvestEU er gríðarlega mikilvægt fyrir íslenskt atvinnulíf og gerir okkur kleift að sækja hærri lánsfjárhæðir á erlendum lánamörkuðum og á betri lánskjörum. Betra fjármögnunarumhverfi nýsköpunar stuðlar ekki aðeins að fjölbreyttara atvinnulífi heldur styður það við samkeppnishæfni Íslands á alþjóðavettvangi og eykur verðmætasköpun,“ segir Áslaug Arna.

Greiðara aðgengi að fjármögnun samfélagslega mikilvægra verkefna með InvestEU

Með InvestEU aukast tækifæri til að fjármagna eða sækja ábyrgð vegna stórra, samfélagslega mikilvægra verkefna, hvort sem þau eru á vegum opinberra aðila, sveitarfélaga eða einkaaðila. Sem dæmi má nefna fjármögnun verkefna á sviði orkuframleiðslu, orkuskipta og innleiðingar hringrásarhagkerfis og stuðning við nýsköpun í matvælaframleiðslu. Þar að auki styður áætlunin við önnur verkefni innan Samstarfsáætlunar ESB á sviði rannsókna og nýsköpunar og eykur aðild því möguleika á þátttöku í stórum alþjóðlegum verkefnum á sviði nýsköpunar, sjálfbærrar þróunar og stafrænna umbreytinga.

Helstu framkvæmdaaðilar áætlunarinnar eru Evrópski fjárfestingabankinn (e. European Investment Bank - EIB), Evrópski fjárfestingasjóðurinn (e. European Investment Fund - EIF) og Norræni fjárfestingabankinn (e. Nordic Investment Bank - NIB).

Stuðlað að umhverfisvænna efnahagslífi

Ábyrgð frá EIF gerir Arion banka kleift að styðja enn frekar við grænar fjárfestingar sem stuðla að umhverfisvænna efnahagslífi og fjárfestingar sem stuðla að inngildingu. Sá hluti ábyrgðanna sem er ætlaður til stuðnings við nýsköpun og stafvæðingu mun auka aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja sem leggja stund á fjárfrekar rannsóknir, að fjármagni og stuðla almennt að stafvæðingu fyrirtækja hér á landi, líkt og kemur fram í tilkyningu Arion banka.

Bankinn hyggst horfa til fjármögnunar fjölbreyttra verkefna á borð við sjálfbæran landbúnað, endurnýjanlega orkugjafa, skilvirka orkunýtingu, hreinna samgangna og mengunarvarna og fráveitustýringar. Á sviði stafvæðingar er gert ráð fyrir lánveitingum til fyrirtækja í örum vexti og nýsköpunar þegar kemur að ferla- og vöruþróun á sviði fiskveiða og fiskeldis, raunvísinda, verkfræði og líftækni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta