Hoppa yfir valmynd
25. september 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Drög að stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið hefur lagt fram til samráðs stefnu og framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda sem Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hyggst leggja fram sem tillögu til þingsályktunar á haustþingi.  Stefnan er til fimmtán ára og var áður birt í hvítbók en framkvæmdaáætlunin er til fjögurra ára.

Í stefnunni kemur í fyrsta sinn fram framtíðarsýn íslenskra stjórnvalda og meginmarkmið til ársins 2038 í málefnum innflytjenda. Stefnan er unnin í breiðu samráði við haghafa og almenning með sérstakri áherslu á aðkomu innflytjenda sjálfra. Alls hafa um 550 einstaklingar komið að vinnunni og er stefnan niðurstaða þessa breiða samráðs. Stefnunni er ætlað að vera leiðarljós til framtíðar og styrkja grundvöll ákvarðana um þau málefni sem snerta líf og velferð innflytjenda hér á landi. Hún leggur grunn að samábyrgð samfélagsins, jafnt innlendra sem innflytjenda, við mótun inngildandi samfélags.

Framkvæmdaáætlunin er unnin að tillögum innflytjendaráðs í samráði við ráðuneyti og stofnanir sem bera ábyrgð á aðgerðum áætlunarinnar. Hún er sett fram til að fylgja eftir markmiðum stefnunnar og er fyrsta skref af mörgum til að ná fram langtímaáhrifum og því framtíðarsamfélagi sem birtist í stefnunni. Í áætluninni eru 26 aðgerðir sem skiptast í 70 verkefni.

Úttekt OECD um innflytjendur á Íslandi sem birt var fyrr í mánuðinum var hluti af ofangreindri vinnu við gerð stefnunnar og framkvæmdaáætlunarinnar.

Þrjú tungumál og auðlesið efni

Stefnan og framkvæmdaáætlunin eru birt á þremur tungumálum: Íslensku, ensku og pólsku. Auk þess má í samráðsgáttinni finna auðlesna útgáfu af framkvæmdaáætluninni með hlekkjum á auðlesna útgáfu stefnunnar sem birtist í vor.

„Ég hef lagt ríka áherslu á málefni innflytjenda frá því að ég tók við embætti félags- og vinnumarkaðsráðherra. Nú hillir undir fyrstu heildstæðu stefnu Íslands í málefnum innflytjenda. Það skiptir miklu máli og er löngu tímabært,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra


Sjá einnig:

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta