Hoppa yfir valmynd
25. september 2024 Heilbrigðisráðuneytið

Mælti fyrir frumvarpi til sóttvarnalaga og frumvarpi um heilbrigðisskrár

Mælti fyrir frumvarpi til sóttvarnalaga og frumvarpi um heilbrigðisskrár - myndStjórnarráð Íslands

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mælti fyrir á Alþingi í gær frumvarpi sínu til nýrra sóttvarnalaga og frumvarpi sem fjallar um heilbrigðisskrár og felur í sér breytingar á lögum um landlækni og lýðheilsu og lögum um sjúkraskrár. Frumvörpunum hefur nú verið vísað til umfjöllunar í velferðarnefnd Alþingis. Heilbrigðisráðherra hyggst leggja fram 15 lagafrumvörp á 155. löggjafarþingi, þar af tólf á haustþinginu.

Frumvarp til nýrra sóttvarnalaga er nú lagt fram á Alþingi í fjórða sinn. Gerðar hafa verið á því minniháttar breytingar frá 154. löggjafarþingi, einkum með hliðsjón af ábendingum sem þá komu fram í þinglegri meðferð velferðarnefndar. Þar ber helst að nefna breytingar sem lúta að ákvörðunum ráðherra um sóttvarnaráðstafanir vegna samfélagslega hættulegs sjúkdóms í 28. gr., um að reglugerðir settar samkvæmt ákvæðinu hafi að hámarki átta vikna gildistíma.

Frumvarp ráðherra sem snýr að heilbrigðisskrám var áður flutt á 154. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það er nú endurflutt lítið breytt með hliðsjón af sjónarmiðum Landspítala og Persónuverndar í umsögnum sem velferðarnefnd aflaði við meðferð málsins. Meginmarkmið frumvarpsins eru þríþætt. Í fyrsta lagi að setja ítarleg ákvæði um tilgang heilbrigðisskráa, öflun upplýsinga í slíkar skrár, rekstur þeirra og notkun. Í öðru að tryggja lagastoð fyrir stofnun og rekstri gæðaskráa af hálfu heilbrigðisstofnana og starfsstofa heilbrigðisstarfsfólks. Í þriðja lagi eru lagðar til breytingar er varða aðgang heilbrigðisyfirvalda að sjúkraskrám við meðferð kvörtunar- eða kærumála vegna veittrar meðferðar og við rannsóknir á atvikum í heilbrigðisþjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta