Framtíðarsýn um vísindi, tækniþróun og nýsköpun í samráðsgátt
Tillögur Vísinda- og nýsköpunarráðs um framtíðarsýn stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar má nú nálgast í samráðsgátt stjórnvalda. Kallað er eftir umsögnum um tillögurnar en umsagnarfestur er til 1. október.
Tillögurnar fjalla m.a. um hvernig megi styrkja stoðir íslensks nýsköpunar- og rannsóknaumhverfis, efla markvisst bæði hagnýtar rannsóknir og áhugadrifnar grunnrannsóknir og stuðla að framúrskarandi menntakerfi til hagsbóta fyrir núverandi og framtíðar kynslóðir.
Markmið samráðsins er að kalla eftir sjónarmiðum helstu hagaðila og almennings og um leið stuðla að upplýstri umræðu um mikilvægi vísinda, tækni og nýsköpunar fyrir íslenskt samfélag, lausn samfélagslegra áskorana og samkeppnishæfni atvinnulífsins.
Innsendar umsagnir verða hafðar til hliðsjónar við áframhaldandi stefnumótunarvinnu. Að afloknu samráði verða drög að stefnu stjórnvalda á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, ásamt aðgerðaáætlun, lögð fyrir ríkisstjórn til samþykktar.
Nánari upplýsingar er að finna í samráðsgátt stjórnvalda, sem má nálgast með því að smella hér.