Hoppa yfir valmynd
2. október 2024 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fyrstu niðurstöður tímarannsóknar Hagstofu Íslands

Hagstofa Íslands hefur birt fyrstu niðurstöður tímarannsóknar sem unnin var í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið. Markmið tímarannsóknarinnar var að leitast við að fanga umfang ólaunaðra heimilis- og umönnunarstarfa og þannig meta skiptingu ógreidds vinnuframlags milli kynja og nýta niðurstöðurnar við stefnumörkun á sviði jafnréttis, fjölskyldumála, félagsmála og almennt í talnaefni um lífskjör og jafnrétti. Gögn sem varpa ljósi á stöðu kynjanna eru mikilvæg forsenda þess að stjórnvöld geti unnið að samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða við stefnumótun sína og áætlanagerð.

Hagstofa Íslands framkvæmdi rannsóknina í nóvember 2023. Um var að ræða úrtaksrannsókn þar sem kannað var með hvaða hætti fólk búsett á Íslandi nýtti tíma sinn. Fyrstu niðurstöður eru nú komnar á vefinn en ítarlegri niðurstöður birtast síðar. Svarhlutfall rannsóknarinnar reyndist afar lágt eða 17,7%.

Rannsóknir á ólaunuðum heimilis og umönnunarstörfum hafa sýnt að þau eru fremur unnin af konum en körlum. Ójöfn skipting þeirra hefur áhrif á stöðu og tækifæri kvenna en konur eru líklegri til að vera í hlutastarfi og ólíklegri til að gegna stöðu æðstu stjórnenda. Einnig getur kynjuð verkaskipting ýtt yndir staðalmyndir og viðhaldið hefðbundum kynhlutverkum inni á heimilum og vinnumarkaði.

Mælingar á því hvernig fólk ver tíma sínum geta gefið betri og dýpri skilning á aðstæðum og lífsgæðum í samfélaginu og varpað ljósi á kynjuð mynstur ólaunaðra heimilis- og umönnunarstarfa. Vonast er til að gögn og rannsóknir sem þessar varpi ljósi á stöðu kynjanna sem er forsenda vandaðrar stefnumótunar. Tímanotkunarrannsóknir eru hins vegar flóknar og tímafrekar og leggja mikla svarbyrði á þátttakendur sem aftur getur leitt til brottfalls í svörun.

Félags og vinnumarkaðsráðuneytið mun ásamt Hagstofu Íslands vinna áfram með gögnin með áherslu á skiptingu heimilis og umönnunarstarfa milli kynja.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta