Hoppa yfir valmynd
2. október 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Útlit fyrir 2,8% samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda milli ára

Samkvæmt bráðabirgðatölum, sem Umhverfisstofnun hefur skilað Evrópusambandinu, dróst samfélagslosun Íslands saman um 2,8% milli 2022 og 2023 og um 14% frá árinu 2005. Losun frá staðbundnum iðnaði á Íslandi sem fellur undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir dróst saman um 3,3% milli áranna 2022 og 2023 og losun frá flugstarfsemi sem fellur undir ETS kerfið og undir umsjón íslenskra stjórnvalda jókst um 11% milli ára. Losun frá landnotkun stóð nánast í stað milli 2022 og 2023. Heildarlosun Íslands með landnotkun dróst saman um 1,3% milli 2022 og 2023 en hefur aukist um 4,3% frá árinu 2005.

Umhverfisstofnun skilaði í júlí síðastliðnum Evrópusambandinu bráðabirgðatölum um losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi vegna losunar árið 2023, sem nú hafa verið birtar á vef stofnunarinnar. Sögulega, hafa bráðabirgðatölur sem birtar eru á þessum tíma, gefið góða vísbendingu um hvernig losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi er að þróast þó svo að tölurnar geti tekið einhverjum breytingum fram að lokaskilum til Loftslagssamningsins í apríl árið á eftir.

Hvað geta tölurnar sagt okkur?

Samdrátt í samfélagslosun má helst rekja til minni eldsneytisnotkunar í fiskimjölsverksmiðjum, minni notkunar á tilbúnum áburði, fækkun sauðfjár og minni urðunar úrgangs. Í bráðabirgðatölunum er einnig að sjá merki um samdrátt í losun frá vegasamgöngum milli 2022-2023, sem gefur vísbendingu um ávinning af rafbílavæðingu bifreiðaflotans.

 

Mynd 1. Þróun losunar frá þeim flokkum sem falla undir orku í loftslagsbókhaldi Íslands (gögn frá Umhverfisstofnun)

Eins og áður sagði er um hér er um bráðabirgðatölur að ræða, sem geta  breyst við frekari vinnslu fram að lokaskilum í apríl 2025. Bráðabirgðatölur gefa þó alla jafna góða vísbendingu um þróun losunar.

„Það er ánægjulegt að sjá vísbendingar um greinilegan samdrátt milli ára í losun gróðurhúsalofttegunda. Jafnframt er uppörvandi að bráðabirgðagreiningar sýni að það sé góður möguleiki fyrir Ísland að ná að standast skuldbindingar sínar á báðum uppgjörstímabilum þessa áratugar innan marka þess sveigjanleika sem samið hefur verið um milli Evrópulanda, Noregs og Íslands,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Samhliða skilum á bráðabirgðatölum, vann Umhverfisstofnun greiningu á því hvað tölurnar geti þýtt varðandi  uppgjör skuldbindinga Íslands í samstarfi við Evrópusambandið.  Þessi greining, sem birt er í töflunni hér fyrir neðan, bendir til þess að Ísland eigi möguleika á því að standast þær loftslagsskuldbindingar sem stjórnvöld hafa undirgengist gagnvart ESB, með því að nýta sveigjanleika um notkun heimilda til að vinna á móti þeirri umframlosun sem verður innan samfélagslosunar.

 

 

 

Frétt Umhverfisstofnunar

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta