Mikil eftirspurn eftir ráðgjafa og upplýsingaþjónustu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess
Eftirspurn hefur verið mikil eftir ráðgjafa og upplýsingaþjónustu fyrir fólk með heilabilun og aðstandendur þess sem komið var á í fyrra í tengslum við aðgerðaáætlunina Gott að eldast.
Alzheimersamtökin skrifuðu í júní 2023 undir samning við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið þess efnis að samtökin myndu koma þjónustunni á fót. Ásta Kristín Guðmundsdóttir, félagsráðgjafi MA, hóf störf þann 1. september í fyrra og síðan þá hafa nærri 500 manns leitað eftir upplýsingum og ráðgjöf.
Ráðgjöfin hefur ýmist verið veitt í gegnum síma, á staðnum, með fjarviðtölum gegnum netið eða með tölvupósti og er fólki að kostnaðarlausu. Flest hafa leitað eftir ráðgjöf varðandi samskipti, aðstoð frá hinu opinbera, aðstoð varðandi greiningu og ferlið sem við tekur, fjármál, bílpróf og tæknilausnir.
Hægt er að panta tíma í ráðgjöf í síma 520-1082, senda póst á [email protected] eða fylla út form á vefnum og haft verður samband til baka. Ráðgjafi hefur auk þess tvisvar farið í ferðir út á land og boðið upp á viðtöl og verður farið í fleiri slíkar ferðir í vetur.
Gjörbreytt aðgengi að ráðgjöf og upplýsingum
„Heilabilunarsjúkdómar hafa mikil áhrif á fjölskyldulífið. Þegar sjúkdómurinn ágerist þarf fjölskyldan sífellt að aðlaga sig og finna nýjar lausnir á þeim áskorunum sem upp koma. Mikilvægt er að við hjálpum fólki við þetta og veitum einstaklingum með heilabilun og aðstandendum þeirra ráðgjöf, leiðbeiningar og stuðning. Greinilegt er að mikil þörf er á þjónustunni og kærkomið að geta veitt hana,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Aukin upplýsinga- og ráðgjafaþjónusta hefur veitt fólki með heilabilun og aðstandendum þess betra aðgengi og styttri biðtíma eftir stuðningi og ráðgjöf. Við erum að ná til hóps sem við náðum ekki til áður og eftirspurnin er mikil. Biðtíminn eftir ráðgjöf er einungis einn til átta dagar og það er einstaklega ánægjulegt að geta veitt ráðgjöf um leið og hennar er þörf. Við finnum líka sterkt að ráðgjöfin léttir mikið undir með þeim sem til okkar leita,“ segir Guðlaugur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra endurnýjaði nýverið samninginn við Alzheimersamtökin vegna upplýsinga- og ráðgjafaþjónustunnar og gildir hann til haustsins 2025.
Guðlaugur Eyjólfsson, framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, endurnýja samninginn um upplýsinga- og ráðgjafaþjónustuna.