Hoppa yfir valmynd
7. október 2024 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Húsfyllir til heiðurs skapandi greinum: Menning og listir auðga hagkerfið kröftuglega

Húsfyllir var á málþingi um verðmæti skapandi greina  sl. fimmtudag. - myndValli

Menningar og viðskiptaráðuneytið stóð á fimmtudaginn fyrir opnu málþingi um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi. Fullt var út úr dyrum á Tjarnarbíói þegar Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur kynnti samnefnda skýrslu sem greinir stöðu menningar og skapandi greina hérlendis.

„Tilgangur með þessari vinnu var að fá samanburðarhæfar tölur og skilgreina tækifæri,“ segir Ágúst Ólafur og bendir á að beint framlag til menningar og skapandi greina hafi numið 3,5% af landsframleiðslu árið 2023 eða 150 milljörðum sem er litlu minna en framlag fiskveiða og fiskeldis til þjóðarbúsins sama ár eða 4%.

Ágúst Ólafur segir að umfang skapandi greina og menningar hérlendis sé mun meira en flestir geri sér grein fyrir en áætlað er 15.300 manns starfi í þeim flokki.

Meðal meginniðurstaðna skýrslunnar er eftirfarandi:

• Beint framlag menningar og skapandi greina nam 3,5% af landsframleiðslu, eða um 150 milljörðum kr., árið 2022, sem er litlu minna en framlag sjávarútvegs.

• Opinber fjárfesting einnar krónu í menningu og skapandi greinum verður að þremur krónum í hagkerfinu. Sé óbein hlutdeild menningar og skapandi greina tekin með nemur hlutfall af landsframleiðslu um 4,5% sem er um 190 milljarðar kr.

• Ísland er í 1. sæti af löndum Evrópu þegar kemur að opinberum útgjöldum til menningarstarfsemi.

• Áætlaðar skatttekjur hins opinbera vegna skatta á laun og neyslu vinnuafls í menningu og skapandi greinum ásamt tekjum vegna áhrifa þessara greina á ferðamannafjölda er yfir 40 milljarðar kr.

• Skatttekjur ríkisins af menningu og skapandi greinum eru 17 milljörðum kr. hærri en það sem ríkið lætur nú renna til menningarmála og fjölmiðlunar, fyrir utan endurgreiðslur.

• Séu hins vegar endurgreiðslur ríkisins vegna rannsóknar og þróunar ásamt endurgreiðslum vegna kvikmynda teknar með eru umræddar skatttekjur næstum jafnháar og útgjöld ríkisins sem renna til menningar og skapandi greina.

• Virðisauki menningar og skapandi greina í hagkerfinu hefur aukist um 70% á 10 árum og er nú svipað hár og tekjuskattur allra fyrirtækja í landinu.

Í skýrslunni eru lagðar fram 40 tillögur sem ætlað er að styrkja stöðu menningar og skapandi greina sem undirstöðuatvinnugreinar hér á landi. Skýrsluna má nálgast hér. 

Ísland verði alþjóðleg miðstöð friðar og lista

Á málþinginu var fluttur fjöldi áhugaverðra erinda, meðal annars um mikilvægi þekkingarsköpunar og gagnaöflunar, almannaheillafélög í heimi menningar og listar, virði og virðismat í skapandi greinum auk þess sem hugmyndir og eldmóður gesta í pallborðsumræðum veitti kröftugan innblástur.

Sérstakur gestur á málþinginu var Jasper Parrott sem er einn virtasti umboðsmaður heims á sviði klassískrar tónlistar og er mikill Íslandsvinur en hann hefur heimsótt landið reglulega í yfir 50 ár. Hann er meðal annars umboðsmaður Víkings Heiðars og Daníels Bjarnasonar auk þess sem hann var umboðsmaður píanóleikarans Vladimir Ashkenazy sem nú er sestur í helgan stein. Jasper flutti erindi um mikilvægi listar á viðsjárverðum tímum og viðraði hugmyndir sína um að Ísland sé fullkominn staður fyrir alþjóðlega miðstöð listar og friðar. 

Segir Parrott bæði landfræðilega legu landsins, herleysi og þá staðreynd að hingað hafi verið leitað eftir fundarstað til að ná sáttum í erfiðum alþjóðlegum deilum varpa ljósi á hversu sérstakt landið er. Sagði hann Ísland vera fullkominn vettvang fyrir áhrifafólk til að hittast og setja áherslu á hvernig stuðla megi að listsköpun og frið í heiminum, því listin dafni jú best í friði eins og allt mannkynið. Gestir tóku hugmyndafræði Parrotts vel og hlaut hann dynjandi lófatak að launum.

 

Jakob Frímann Magnússon tónlistarmaður, Jasper Parrott umboðsmaður, Sigga Heimis iðnhönnuður, Brynhildur Guðjónsdóttir Borgarleikhússtjóri og Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur.

Jóna Hlíf Halldórsdóttir formaður BÍL var með erindi um virði og virðismat í skapandi greinum. 

 

Sunna Jóhannsdóttir sérfræðingur í menningar- og viðskiptaráðuneytinu talaði um almannaheillafélög í heimi menningar og lista. 

Erla Rún Guðmundsdóttir forstöðukona Rannsóknaseturs skapandi greina kom inn á þekkingasköpun og verðmæti rannsókna.

Jasper Parrott

Jasper Parrott umboðsmaður.

Ágúst Ólafur Ágústsson hagfræðingur og skýrsluhöfundur. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta