Tilfærsla girðingar á Reykjavíkurflugvelli bundin samkomulagi ríkis og borgar
Í tilefni af fréttaflutningi um legu girðingar á Reykjavíkurflugvelli vill innviðaráðuneytið árétta eftirfarandi: Kveðið er á um tilfærslu girðingar á Reykjavíkurflugvelli við Skerjafjörð í samkomulagi ríkis og Reykjavíkurborgar frá árinu 2013. Verkefninu átti enn fremur að vera lokið árið 2020 í takt við aðgerðaáætlun samgönguáætlunar fyrir tímabilið 2020-2024.
Í samkomulagi ríkis og borgar var fjallað um legu girðingarinnar með skýringarmyndum með legu girðingar fyrir og eftir breytingar. Samkomulagið gerir ráð fyrir legu girðingarinnar þannig að skýli á mörkum svæðanna verði innan hennar þar til niðurstaða næst um niðurrif eða flutning. Innviðaráðuneytið áréttar því að ekki er um að ræða nýja ákvörðun heldur verkefni sem verði nú lokið í góðri samvinnu aðila á grunni samkomulagsins og samgönguáætlunar.
Ráðuneytið hefur beint því til Isavia að fylgja eftir fyrirliggjandi áætlun um tilfærslu girðingar við flugvallarsvæðið í Reykjavík.