Undirrituðu sögulegan samning
Menningar- og viðskiptaráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir og forstjóri Hagstofunnar, Hrafnhildur Arnkelsdóttir undirrituðu á fimmtudaginn samning um menningartölfræði. Sama dag fór fram málþing um verðmætasköpun menningar og skapandi greina og þótti því tilvalið að nýta það tilefni til að undirrita samninginn en meðal erinda á málþinginu var innlegg um mikilvægi þekkingarsköpunar og rannsókna.
Á málþingin var einnig kynnt skýrsla um framlag menningar og skapandi greina til verðmætasköpunar á Íslandi en í henni er meðal annars komið inn á mikilvægi tölfræði og gagnavinnslu.
„Samningurinn markar söguleg tímamót fyrir menningu og skapandi greinar á Íslandi. Markmið samningsins er að miðlun á hagtölum um menningu og skapandi greinar verði hluti af reglubundinni starfsemi Hagstofu Íslands. Það er staðfesting á auknu vægi menningar og skapandi greina í íslensku efnahagslífi. Munu upplýsingarnar varpa ljósi á þróun atvinnuvegarins og gagnast stjórnvöldum við ákvarðanatöku og stefnumótun en ekki síður atvinnuveginum sjálfum,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra.
Auk miðlunar á hagtölum felur samningurinn einnig í sér ýmis önnur verkefni sem Hagstofan tekur að sér, á borð við aukið alþjóðlegt samstarf vegna menningartölfræði og gerð úrtaksrannsóknar á menningarneyslu og menningarþátttöku landsmanna.