Hoppa yfir valmynd
8. október 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Umhverfisþing 5. nóvember – skráning hafin

Skráning er hafin á XIII. Umhverfisþing sem haldið verður þriðjudaginn 5. nóvember. Þingið fer fram í Kaldalóni í Hörpu og stendur frá kl. 13 – 16. Einnig verður hægt að fylgjast með þinginu í beinu streymi.

Umfjöllunarefni þingsins eru loftslagsmál, aðlögun að loftslagsbreytingum og náttúruvernd.

Meðal þeirra sem flytja erindi á þinginu eru:

Mikael Allan MikaelssonDr. Mikael Allan Mikaelsson. Hann hefur starfað sem sérfræðingur á sviði loftslagsstefnumótunar síðastliðin tvö ár hjá Stockholm Environment Institute (SEI) og er einn af helstu höfundum Evrópska loftslagsáhættumatsins sem gefið var út af Umhverfisstofnun Evrópu (European Environment Agency) fyrr á árinu. Mikael hefur unnið markvisst við greiningar á kerfisbundnum áhrifum loftslagsbreytinga (t.d. þvert á landamæri) og stefnumótun á sviði loftslagsaðlögunar til að sporna við þeim, og hefur hann t.a.m. starfað við greiningar og ráðgjöf um afleiðinga loftslagsbreytinga á aðfangakeðjur og viðskiptalíf fyrir Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, UN Global Compact World Economic Forum. Áður en Mikael hóf störf hjá SEI, starfaði hann í tæpan áratug fyrir bresku utanríkis-, orku- og iðnaðarráðuneytin þar sem hann hafði umsjón með tækni, vísinda- og nýsköpunarsamstarfi tengdu evrópskum loftslagsaðgerðum og hlaut hann MBE orðuna og nafnbótina af hendi bresku krúnunnar fyrir störf sín á sviði loftslagsmála.

Elín Björk JónasdóttirElín Björk Jónasdóttir, sérfræðingur í loftslagsteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Íslensk stjórnvöld kynntu í sumar uppfærða aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Áætlunin samanstendur af 92 loftslagsaðgerðum og 58 loftslagstengdum verkefnum, sem er umfangsmikil aukning frá fyrri aðgerðaáætlun. Elín kom til starfa í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu fyrir rétt rúmu ári, en hafði áður unnið nær allan sinn feril sem veðurfræðingur í ýmsum hlutverkum á Veðurstofu Íslands, þar sem hún lagði meðal annars áherslu á vísindamiðlun og fór einnig um tíma með veðurfregnir á  RÚV.

Hildigunnur H. H. ThorsteinssonHildigunnur H. H. Thorsteinsson, forstjóri Veðurstofu Íslands. Veðurstofa Íslands vinnur nú að gerð Loftslagsatlass, sem var ein af forgangsaðgerðum stýrihóps sem umhverfis-, orku og loftslagsráðherra skipaði haustið 2022 til að vinna tillögur fyrir gerð Landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Hildigunnur starfaði áður m.a. sem Chief Technical Officer hjá Innargi AS í Kaupmannahöfn, framkvæmdastýra rannsókna- og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur og sem teymisstjóri á jarðvarmasviði í orkumálaráðuneyti Bandaríkjanna.

Steinar KaldalSteinar Kaldal, sérfræðingur í náttúruverndarteymi umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins. Þjóðgarðar og önnur friðlýst svæði eru aðdráttarafl í augum margra ferðamanna. Steinar mun fara yfir jákvæð samfélagsleg áhrif þessara svæða og taka dæmi innanlands og erlendis.

 

 

Þingið er öllum opið á meðan að húsrúm leyfir og er fólk hvatt til að skrá sig á slóðinni hér að neðan:

https://forms.gle/6WDczTRas54jhRbh8

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta