Dýravelferð og „Ein heilsa“ eru viðfangsefni Matvælaþings 2024
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra boðar til Matvælaþings 2024 sem haldið verður í Silfurbergi í Hörpu 5. nóvember n.k.
Frá upphafi hefur Matvælaþing verið vettvangur fyrir skoðanaskipti og samræðu á milli þeirra mörgu og ólíku starfsgreina sem vinna að matvælaframleiðslu og -vinnslu á Íslandi. Þingið sameinar framleiðendur, neytendur og stjórnvöld í þeim tilgangi að vinna að sameiginlegu markmiði, sjálfbærri matvælaframleiðslu í hæsta gæðaflokki.
Dýravelferð og hugmyndafræðin Ein heilsa (e. One Health) eru meginviðfangsefni þingsins sem er nú haldið í þriðja sinn. Í störfum sínum hefur matvælaráðherra lagt aukna áherslu á ábyrgt dýrahald og velferð dýra með hliðsjón af hugmyndafræði Einnar heilsu þar sem heilsa manna, dýra og umhverfis mynda eina órofa heild. Dýravelferð er mikilvægur hluti þeirrar stefnu og samræmist markmiðum laga um velferð dýra sem eru að dýr séu laus við vanlíðan, hungur, þorsta, ótta, þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma í ljósi þess að þau séu skyni gæddar verur. Ennfremur er það markmið laganna að dýr geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.
Maarten Hoek frá Lýðheilsu- og umhverfisstofnun Hollands flytur fyrirlestur á þinginu um áskoranir og ávinning sem tengjast Einnar heilsu stefnunni í alþjóðlegu samhengi. Maarten hefur unnið að One Health Strengthening Europe verkefninu, samvinnuverkefni evrópskra stofnana sem miðar að því að styrkja stefnuna í Evrópu.
Dr. Rebeca García Pinillos er stofnandi og framkvæmdastjóri One Welfare CIC samtakanna sem vinna að auknum skilningi á tengslum umhverfisverndar við velferð dýra og manna. Umfjöllunarefni fyrirlesturs Rebecu verður Ein velferð stefnan (e. One Welfare) sem er útvíkkun á Einnar heilsu stefnunni og tengir saman velferð dýra, velferð manna og umhverfisvernd. Ein velferð byggir á hugmyndinni um að velferð dýra hafi bein og óbein áhrif á velferð manna og umhverfisins og öfugt.
Vigdís Tryggvadóttir, sérgreinadýralæknir hjá Matvælastofnun mun einnig flytja fyrirlestur um Einnar heilsu stefnuna í íslensku samhengi og Sigurborg Daðadóttir, fyrrum yfirdýralæknir og sérfræðingur hjá matvælaráðuneytinu, mun flytja fyrirlestur undir heitinu Dýrahald og siðferði þar sem fjallað verður um margvíslegar hliðar dýrahalds og þær áskoranir sem því fylgja.
Sigurborg Daðadóttir, fyrrum yfirdýralæknir og sérfræðingur hjá matvælaráðuneytinu, mun flytja fyrirlestur undir heitinu Dýrahald og siðferði þar sem fjallað verður um margvíslegar hliðar dýrahalds og þær áskoranir sem því fylgja.
Í framhaldi fyrirlestra verða pallborðsumræður sem byggja á málefnum dýraverndar og Einnar heilsu stefnunni. Þátttakendur eru fjölbreyttur hópur sem kemur úr ólíkum áttum.
Einnig munu Vandræðaskáldin og Bjarni töframaður mæta á Matvælaþing og fjalla um málefni þess á sinn hátt.
Matvælaþing verður sett klukkan 9:00 og lýkur klukkan 15:00. Þingið er öllum opið en skráningar er krafist á þingið. Skráning fer fram hér.