Samið um stuðning við jarðvanga Íslands: Einstök svæði á heimsvísu
Dagana 2.-4. október fór fram alþjóðleg ráðstefna samtaka evrópskra jarðvanga í Reykjanesbæ (European Geoparks Network Conference). Jarðvangar (e. geoparks) eru samfelld landfræðileg svæði, þar sem minjum og landslagi sem eru jarðfræðilega mikilvæg á heimsvísu og er stýrt eftir heildrænni stefnu um verndun, fræðslu og sjálfbæra þróun.
Ráðstefnan er haldin annað hvert ár og fór nú fram í sautjánda sinn. Alls sóttu um 400 gestir ráðstefnuna, þar sem fram fóru um 200 kynningar og vinnustofur með fulltrúum háskóla og jarðvanga um alla Evrópu. Kynnt voru fjölbreytt verkefni jarðvanga sem meðal annars snúa að jarðfræði, verndun náttúruminja, rannsóknum, menntun og fræðslu, ferðaþjónustu, menningu og samfélagsþróun.
Kraftur jarðar og heimsþekkt fuglabjörg
Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, ávarpaði ráðstefnugesti við setningu ráðstefnunnar og í framhaldi af því skrifað ráðherra undir samninga um stuðning við þá tvo alþjóðlegu UNESCO jarðvanga sem er að finna á Íslandi, þ.e. annars vegar við Kötlu jarðvang og hins vegar við Reykjanes jarðvang.
„Að eiga slíkan leikvang sem landið okkar er, eru mikil lífsgæði og margar af mínum bestu minningum eru tengdar íslenskri náttúru. Það eru forréttindi að geta ferðast yfir svartan sand, grænar grundir og jökul á sama degi. Þessari fegurð og forréttindum fylgir einnig sú skylda að vernda náttúruna og okkur sjálf. Jarðvangarnir okkar eru mikilvægur liður í því starfi og ég hvet sem flesta til að líta sér nær og heimsækja þá og um leið fræðast um undrið sem Ísland er,“ segir Lilja Dögg Alfreðsdóttir.
Katla jarðvangur er fyrsti jarðvangur Íslands og var hann stofnaður í nóvember 2010. Katla jarðvangur nær yfir 9.542 km2 landsvæði og þekur rúmlega 9% af flatarmáli landsins, frá Hvolsvelli í vestri að Skeiðarársandi í austri. Nyrsti hluti jarðvangsins teygir sig langt inn á Vatnajökul en langar strendur af svörtum sandi afmarka jarðvanginn í suðri. Katla jarðvangur er sjálfseignarstofnun í eigu Skaftárhrepps, Mýrdalshrepps, Rangárþings eystra og ferðaþjónustuaðila á svæðinu. Þykir svæðið ákaflega fjölbreytt og spennandi landfræðilega á heimsvísu hvort heldur sem litið er til milljóna ára landslagsmyndanna, nýlegs hrauns Eyjafjallajökuls, jökulkrýnd eldfjöll eða jökulvatnsins. Andstæður elds og íss eru þar áberandi og kraftur jarðar áþreifanlegur með einsdæmum.
Reykjanes jarðvangur („Reykjanes Geopark“) var stofnaður 2012 af sveitarfélögunum á Suðurnesjum ásamt Ferðamálasamtökum Reykjaness, Bláa lóninu, Þekkingarsetri Suðurnesja, Keili og HS Orku. Reykjanes jarðvangur nær yfir allt land viðkomandi sveitarfélaga og er samtals 825 km2 að stærð. Á Reykjanesi er hægt að finna háhitasvæði með tilheyrandi hverum og gufustrókum, hundruð mismunandi gíga, hella, hraunbreiða, kletta og svartar strendur auk heimsþekktra fuglabjarga.
Hlutverk jarðvanga
Hlutverk jarðvanga er að veita fræðslu og efla skilning á náttúru- og menningarminjum á svæðinu, sjálfbærri nýtingu auðlinda, hringrásarhagkerfi innan auðlindagarða og hvernig bregðast megi við og draga úr áhrifum náttúruhamfara. Með samningum menningar- og viðskiptaráðuneytisins við jarðvangana tvo er veitt 10 m.kr. framlag á þessu ári til hvors jarðvangs um sig, og 10 m.kr. á næsta ári. Er fjármagninu ætlað að styðja við rekstur og markaðssetningu jarðvanganna og til að geta í auknu mæli veitt kennslu og fræðslu á vettvangi jarðvanganna um sögu og náttúru viðkomandi svæða, bregðast við áhrifum náttúruhamfara, styðja við rannsóknir og efla sjálfbæra ferðaþjónustu innan svæðanna. Framangreindur stuðningur er í samræmi við áherslur í ferðamálastefnu 2030 og aðgerðaráætlun hennar, sem samþykkt var á Alþingi í júní 2024.