Forsætisráðherra tók við undirskriftum um átakið Hnífalaus framtíð
Bjarni Benediktsson forsætisráðherra tók í dag á móti fulltrúum átaksins Hnífalaus framtíð. Þær Hrefna Dís Héðinsdóttir, Karen Birna Einarsdóttir Stephensen, Tinna Sigríður Helgadóttir og Valdís Eva Eiríksdóttir, úr Verzlunarskóla Íslands, afhentu forsætisráðherra á annað þúsund undirskriftir þar sem hvatt er til hertra laga um vopnaburð.
Á fundinum ræddu þær um mikilvægi þess að ungt fólk upplifði sig öruggt og leggja yrði áherslu á að draga úr vopnaburði meðal þess. Þá kynntu þær fyrir forsætisráðherra tölfræði og tillögur um efnið.
Þær leggja áherslu á að hnífa eigi ekki að nota sem vopn og með hertum viðurlögum megi koma í veg fyrir alvarleg ofbeldisbrot og bjarga mannslífum. Þannig megi draga úr hnífaofbeldi á Íslandi.