Hoppa yfir valmynd
17. október 2024 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Efling Kvískerjasjóðs - þriggja ára átaksverkefni

Kvísker í Öræfum - myndVeðurstofan/Árni Sigurðsson

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur ákveðið að leggja aukið fé til Kvískerjasjóðs vegna þriggja ára átaksverkefnis. Átakinu er ætlað að falla að meginmarkmiðum sjóðsins, en hlutverk hans er að stuðla að og styrkja rannsóknir á náttúru- og menningarminjum í Austur-Skaftafellssýslu.

Fyrst var úthlutað úr sjóðnum árið 2004 og hefur það verið gert reglubundið allar götur síðan. Með sjóðnum er lífsverk Kvískerjasystkinanna heiðrað en þau unnu ötult starf á fræðasviði náttúru- og menningarminja.

Fjárveitingin nemur alls níu milljónum króna og er ætlað að standa undir 3 ára átaksverkefni, að styrkja málefni og grundvöll sjóðsins og styðja við skipulagsskrá hans.

Ný stjórn sjóðsins var skipuð í júní og  hefur verið falið að koma með tillögu um nýtingu fjárins, m.a. varðandi frekari rannsóknir. Stjórnina skipa:

  • Árni M. Mathiesen, formaður
  • Dagný Arnarsdóttir
  • Þuríður Halldóra Aradóttir Braun

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra: „Kvískerjasystkinin ólust upp á íslensku alþýðuheimili á austasta bænum í Öræfum og voru án formlegrar menntunar á sínum fræðasviðum. Þrátt fyrir það höfðu þau djúpstæða þekkingu og skráðu og rannsökuðu svæðið á vísindalegan hátt og  við krefjandi aðstæður. Þau voru einnig frumkvöðlar á mörgum sviðum. Á þeim tíma var svæðið bæði einangrað og erfitt yfirferðar. Við megum aldrei gleyma þeirra mikilvæga framlagi til náttúru- og hugvísinda á Íslandi og okkur ber að hafa í heiðri þeirra lífsverk og miðla því áfram.“

Árni M. Mathiesen, formaður stjórnar Kvískerjasjóðs: „Það er vel fundið hjá ráðherra að setja af stað átaksverkefni til þess að efla starf Kvískerjasjóðs. Stjórnin hefur hafist handa við að undirbúa verkefnið og verður það gert í anda fyrra starfs sjóðsins. Reynt verður taka tillit til breytinga á umhverfinu og hafa samráð og samstarf við nærumhverfið og velunnara sem og aðra sem glíma við svipuð verkefni. Allt með því fororði að efla Kvískerjasjóð til framtíðar í anda systkinanna.“

Kvískerjasjóður var stofnaður af umhverfisráðuneytinu árið 2003 til heiðurs Kvískerjasystkinum fyrir framlag þeirra til öflunar þekkingar og rannsókna á náttúru og sögu Austur-Skaftafellssýslu. Á vef sjóðsins kemur fram að systkinin á Kvískerjum hafi verið einstök í sinni röð og á fræðisviðinu hafi þau orðið „sín eigin Akademía svo annálað þykir“.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta