Hoppa yfir valmynd
18. október 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Handbók farsældar - innleiðing farsældarlaganna á landsvísu

Innleiðing laga um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna stendur yfir í sveitarfélögum landsins. Markmiðið er að börn og foreldrar hafi aðgang að samþættri þjónustu við hæfi án hindrana. Barna- og fjölskyldustofa hefur nú gefið út handbók til að styðja við sveitarfélög og hlutaðeigandi stofnanir í innleiðingunni.

Farsældarlögin tóku gildi í janúar 2022. Ætlunin er að öll börn njóti sömu þjónustu óháð búsetu og að þjónustan verði samræmd. Þar gegnir handbókin lykilhlutverki við að tryggja samræmd vinnubrögð á landsvísu með gæðaviðmiðum og eftirfylgd með innleiðingunni.

Handbók farsældar er rafræn og inniheldur gagnleg ráð ásamt leiðbeiningum, fræðsluefni og öðru stuðningsefni sem Barna- og fjölskyldustofa hefur gefið út í tengslum við innleiðinguna. Handbókin dregur allt efnið saman á einn stað til að auðvelda aðgengi að upplýsingum.

Handbókin er unnin í samvinnu Barna- og fjölskyldustofu við mennta- og barnamálaráðuneytið og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) á Íslandi. Samvinnan við UNICEF byggir á reynslu þeirra og þekkingu við að innleiða verkefnið Barnvæn sveitarfélög og er handbók þeirra fyrirmynd Handbókar farsældar. Horft er á handbókina sem lifandi skjal sem tekur breytingum með aukinni reynslu og þekkingu á framkvæmd farsældarlaganna.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta