Hoppa yfir valmynd
18. október 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Skipun í embætti skrifstofustjóra

Hafþór Einarsson og Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir - mynd

Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur skipað Hafþór Einarsson og Halldóru Dröfn Gunnarsdóttur í tvö embætti skrifstofustjóra í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Hafþór Einarsson er skipaður í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu greininga og fjármála. Hafþór er með BSc-gráðu í viðskiptafræði frá Háskólanum á Akureyri og réttindi til kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Frá árinu 2022 hefur Hafþór verið sérfræðingur og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu greininga og fjármála hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu og settur skrifstofustjóri til eins árs frá byrjun árs 2024. Hann var sérfræðingur á skrifstofu fjármála og rekstrar í ráðuneytinu 2018–2022. Áður starfaði hann sem fjármálasérfræðingur hjá Reykjavíkurborg og sem skrifstofustjóri Skóladeildar Akureyrarbæjar, auk þess að vera grunnskólakennari í Varmárskóla.

Halldóra Dröfn Gunnarsdóttir er skipuð í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar. Halldóra er með BA-gráðu í félagsfræði frá Háskóla Íslands og félagsráðgjöf til starfsréttinda frá sama skóla. Hún hefur lokið diplómanámi á meistarastigi í réttarfélagsráðgjöf við Háskóla Íslands með áherslu á stjórnsýslurétt. Á árunum 2022 til 2024 var Halldóra teymisstjóri og staðgengill skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumótunar og innleiðingar hjá mennta og barnamálaráðuneytinu og settur skrifstofustjóri til eins árs frá byrjun árs 2024. Áður var hún verkefnastjóri hjá Mannréttindaskrifstofu Reykjavíkur og sérfræðingur og teymisstjóri barnamála hjá félagsmálaráðuneytinu. Halldóra var framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur 2005–2018 og verkefnastjóri og staðgengill framkvæmdastjóra á árunum 2000–2005. Áður starfaði hún hjá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar.

Bæði hafa þau reynslu af breytingarstjórnun og stjórnun krefjandi verkefna auk sérþekkingar Hafþórs á fjármálastjórn og áætlanagerð á vegum hins opinbera og sérþekkingar Halldóru á stefnumótun og innleiðingu en hún kom m.a. að innleiðingu og lagaumgjörð um farsæld barna. Þá búa þau yfir reynslu af stjórnunarstörfum og reynslu af umbótavinnu.

Ráðgefandi hæfnisnefndir skipaðar samkvæmt 19. gr. laga 115/2011 um Stjórnarráð Íslands lögðu mat á hæfni umsækjenda. Skipað er í embættin til fimm ára.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta