Hoppa yfir valmynd
18. október 2024 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sölu á útistandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka frestað

Ákveðið hefur verið að fresta sölu á útistandandi hlutum ríkisins í Íslandsbanka. Einhugur var innan ráðherranefndar um ríkisfjármál, þar sem forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra sitja, um að fresta sölunni, að fenginni ráðgjöf frá umsjónaraðilum útboðsins. Er þar horft til markaðsaðstæðna og þess að skammt er til alþingiskosninga. Mikilvægt er að hámarka líkur á að útboðið heppnist vel og að næg þátttaka fáist, meðal annars frá almenningi.

Undirbúningur sölunnar hefur gengið vel og er kominn langt á veg í samstarfi við ráðgjafa ríkisins, Kviku, Barclays og Citi, fjármálaráðgjafann Landsbankann, auk lögfræðiráðgjafa. Mun sú vinna nýtast þegar sölunni verður fram haldið, jafnvel þó það verði ekki fyrr en á nýju ári.

Samkvæmt lögum nr. 80/2024 hefur fjármálaráðherra heimild til að ráðstafa eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka að fenginni heimild Alþingis í fjárlögum. Í lögunum er gert ráð fyrir einu eða fleiri útboðum. Ríkissjóður hefur fengið 108 milljarða króna í sinn hlut í fyrri útboðum Íslandsbanka og á enn 42,5% hlut í bankanum. Horft hafði verið til þess að u.þ.b. helmingurinn af þessum hlut yrði seldur á þessu ári og eftirstandandi hlutur á næsta ári, eftir því sem markaðsaðstæður leyfðu.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta