Hoppa yfir valmynd
20. október 2024 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Öflug náms- og starfsráðgjöf í menntastefnu 2030

Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi - mynd

Í dag er dagur náms- og starfsráðgjafar á Íslandi. Efling náms- og starfsráðgjafar er liður í menntastefnu til ársins 2030 og 2. aðgerðaáætlun hennar fyrir árin 2024–2027. Jónína Kárdal, náms- og starfsráðgjafi, hefur verið ráðin í nýtt stöðugildi í mennta- og barnamálaráðuneytinu til að auka veg og sýnileika náms- og starfsráðgjafar í skólastarfi.

Markmið náms- og starfsráðgjafar er að auðvelda einstaklingum að átta sig á eigin óskum og vilja ásamt því að efla færni þeirra til að taka farsælar ákvarðanir um nám og starf. Ráðgjöfin styður einstaklinga í ferli sínu úr námi og yfir í starf, frá menntun til vinnumarkaðar.

Mikilvægt er að börn og ungmenni finni sína fjöl í lífinu þannig að áhugi og metnaður þeirra nýtist þeim og samfélaginu sem best. Til að stuðla að ígrunduðu náms- og starfsvali er mikilvægt að hafa aðgengi að vönduðum upplýsingum og fá fræðslu þar að lútandi. Hér má nefna að Miðstöð menntunar og skólaþjónustu heldur utan um vefinn Næsta skref sem er almennur upplýsingavefur um nám og störf og er í samstarfi þriggja ráðuneyta, mennta- og barnamálaráðuneytis, félags- og vinnumálaráðuneytis og innviðaráðuneytis. Ég og framtíðin er nýtt íslenskt námsefni í náms- og starfsfræðslu og er liður í því að styðja við framþróun í náms- og starfsfræðslu.

Stækkaðu framtíðina er samstarfsverkefni mennta- og barnamálaráðuneytisins og háskóla-, iðnaðar og nýsköpun og er ætlað að veita börnum og ungmennum innblástur með heimsóknum sjálfboðaliða í skólastofuna þar sem þau fá að heyra hvernig nám og starfsferill hefur mótað líf þeirra. Markmið verkefnisins er að opna augu nemenda fyrir þeim tækifærum sem framtíðin hefur upp á að bjóða og auka þannig áhuga þeirra á námi.

Stofnað var til dagsins af Félagi náms- og starfsráðgjafa árið 2006 og er hann haldinn 20. október ár hvert. Tilgangur hans er að vekja athygli á markmiðum náms- og starfsráðgjafar, fagna faginu og hinu lögverndaða starfsheiti náms- og starfsráðgjafi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta